Vitafélagið-íslensk strandmenning
Skýrsla stjórnar 2021
Starfsárið 2020-2021
Helstu verkefni félagsins á liðnu starfsári voru:
Stjórnarfundir voru 18. ágúst 2020 og 3. september. Netfundir voru haldnir 12. janúar 2021, 19. janúar, 2. mars og 13. apríl.
Starfsár félagsins einkenndist eins og allt annað í þjóðfélaginu af COVID 19 og samkomutakmörkunum. Samstarfið hefur fyrst og fremst farið fram í gegnum netheima og verið með eindæmum viðburðasnautt. Stjórnarmenn hafa fundað í gegnum netmiðla, skrifað umsóknir og reynt af fremsta megni að halda einhverjum dampi.
Í upphafi starfsárs var ákveðið að fræðslufundirnir – Spegill fortíðar-silfur framtíðar- yrðu ekki haldnir í Reykjavík, heldur yrðu málþing haldin um land allt í tilefni þess að búið er að tilnefna súðbyrðinginn á heimsminjaskrá UNESCO. Endapunkturinn yrði í Reykjavík á vordögum. En auðvitað hefur heimsfaraldurinn einnig staðið í vegi fyrir þessu. Frestun á frestun ofan. Þegar loks rofaði til nú síðvetrar þá var ákveðið að halda fyrstu málþingin 10. og 11. apríl á Akureyri og Siglufirði. En það var eins og við manninn mælt að um leið og vorblað félagsins fór í póst, ásamt boðum á skemmtileg málþing, þá var skellt í lás. Engin málþing á Akureyri og Siglufirði í bráð. Áður hafði stjórnin, ásamt heimamönnum, frestað málþingum sem halda átti í Vestmannaeyjum, Flateyri og Stykkishólmi. Síðasta málþing vetrarins sem vera átti á Eskifirði nú þann 24. apríl var svo blásið af fyrir viku síðan.
Norrænt samstarf
Eins og annað samstarf hefur norræna samstarfið farið fram í netheimum.
Nýverið bárust þær fréttir að aðalnefnd Menningarmálastofnunnar Sameinuðu þjóðanna - UNESCO - muni funda 13.-18. desember 2021 í Colombo á Sri Lanka, en ekki í París eins og áður var sagt. Þar verður dómur upp kveðinn um hvort súðbyrðingurinn fari á lista hjá UNESCO yfir menningarerfðir mannkynsins-listann yfir þýðingarmikla starfshætti sem borist hafa frá kynslóð til kynslóðar – hefðir sem munu hverfa verði þeim ekki viðhaldið. Ætlast er til að fulltrúar norrænu félaganna mæti á þennan fund.
Undirbúningur að næsta norræna stórmóti er er kominn í gang en það verður haldið í Holbæk og Hróarskeldu í Danmörku dagana 18.-21. maí 2022. Þar verður fjallað um súðbyrðinginn, hefðir sem honum tengjast og framtíð hans. Undirbúningur er í höndum Dana og Norðmanna og er búið að gera heimasíðu https://nordicclinkerboats.org og styttri útgáfu af kvikmyndinni sem send var með umsókninni til UNESCO. https://vimeo.com/oslofilmkompani/review/519919569/eee4aa1ef4
Útgáfa og vefupplýsingar
Fréttabréf Vitafélagsins. Að venju gaf Vitafélagið gaf út tvö tölublöð af Fréttabréfinu á árinu. Eins og áður var það prentað og styrkt af Prentsmiðju Guðjóns Ó., sem nú hefur gengið í eina sæng með Prenttækni og Litrófi og ber heitið Litróf. Sömu velvildar og afbragðs þjónustu er enn að mæta á þeim bæ.
Vefurinn
www.vitafelagid.is Eftir síðasta „hakk“ á vef félagsins vantar enn nokkuð uppá að búið sé að fullvinna hana. Aðallega er það að koma efninu á rétta staði á vefnum. Því miður hafa litlar framfarir orðið á þessu á liðna starfsári og er þar um að kenna seinagangi stjórnarmanna. Væri vel þegið að einhver góður aðili gæfi sig nú fram til að sjá um tæknimál félagsins.
Facebook. Félagið notar Facebook einkum til að auglýsa viðburði og enn fjölgar fésbókarvinum þess sem nú eru ríflega fjögur þúsund.
Umsóknir um styrki til starfseminnar
Stjórnarmenn sóttu um fé í nokkra sjóði til að standa straum af rekstri félagsins og þá sérstaklega fyrir fyrirhuguðum málþingum. Ekki opnuðu allir pyngju sína fyrir félaginu í ár, en Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkti félagið um 2.050.000 kr. til að standa straum af kostnaði við málþingin. Fulltrúi frá ráðuneytinu verður þátttakandi í málþingunum og kynnir verkefnið “Lifandi hefðir“ og hvað það þýðir að fá súðbyrðinginn á lista á heimsminjaskrá UNESCO.
Að lokum vil ég þakka, bæði stjórnarmönnum og öðrum sem lagt hafa hönd á plóg við starf félagsins, fyrir samvinnuna og ómetanlegt framlag til starfsins. Eins og áður hefur allt starf félagsins verið unnið í sjálfboðavinnu af dugnaði og óeigingirni þeirra er lagt hafa því lið.
Megi sumarið færa okkur öllum gæfu og gengi og vonandi getum við aftur fundað að vild, faðmast og kysst, þegar hausta tekur. Njótið sumarsins.
Sigurbjörg Árnadóttir, formaður