Vitafélagið - íslensk strandmenning
Skýrsla formanns 2022
Starfsárið 2021-2022
Starfsár félagsins einkenndist eins og allt annað í þjóðfélaginu af COVID 19 og samkomutakmörkunum. Má því segja að starfið hafi verið með eindæmum viðburðasnautt. Þó mátti gleðja sig við eitt og annað eins og til dæmis það að súðbyrðingurinn komst á skrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) þann 14. desember 2021. Þetta er fyrsta íslenska menningararfleifðin sem kemst á lista UNESCO og fyrsta samnorræna menningararfleifðin sem sett er þar á skrá. Getur félagið svo sannarlega verið stolt af SÍNU STARFI, en það var stjórn félagsins sem hélt utan um þessa vinnu hér á landi og þessi áfangi er einnig tilkominn vegna norrænu strandmenningarhátíðanna sem félagið stofnaði til á sínum tíma.
Félagið fagnaði þessum merka áfanga í Norræna húsinu 16. Desember, ásamt Norræna félaginu á Íslandi sem fagnar 100 ára afmæli í ár. Meðal ræðumanna voru tveir ráðherrar, þau Guðmundur Ingi Kristjánsson, samstarfsráðherra Norðurlanda og Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra menningar og viðskipta og urðu þau bæði að viðurkenna í ræðustóli að þau hefðu ekki hugmynd um hvað súðbyrðingur er. Það er því greinilega ekki vanþörf á að halda strandmenningunni á lofti. Dagskrána í Norræna húsinu má sjá á heimasíðu félagsins, vitafelagid.is/myndbond.
Samningur UNESCO frá árinu 2003 fjallar um varðveislu óáþreifanlegs menningararfs og öðlaðist samningurinn gildi hér á landi árið 2006. Súðbyrðingur er dæmigerður norrænn trébátur sem hefur fylgt Íslendingum og Norðurlandabúum í MEIRA en tvö þúsund ár. Viðurkenning UNESCO krefst þess að við höldum áfram að viðhalda þessari handverkshefð og menningararfleifð sem er einstök. Viðurkenningin hefur þegar haft einhver áhrif og m.a. orðið til þess að aukið var við fjárveitingu í fornminjasjóð og styrkir fengust til viðhalds á súðbyrtum bátum og ráðherra menningarmála hefur veitt fé til að koma Maríu Júlíu í slipp á Akureyri. Vonandi verður viðurkenningin einnig hvati þess að hafin verði að nýju kennsla í bátasmíði í verkmenntaskólum og víðar á landinu.
Málþingum þeim er halda átti á árinu vítt og breytt um landið var frestað hvað eftir annað og þau sem haldin voru hlutu misgóða aðsókn vegna veikinda og ótta fólks við veikindi. Á haustmánuðum tókst að halda málþing á Akureyri 9. október og á Siglufirði 10. október. Það var svo ekki fyrr en á vormánuðum sem Covid og veðurguðirnir leyfðu framhald þar á. Málþing var haldið á Flateyri 2. apríl en bátasmíðanámskeiðinu sem vera átti í framhaldi af því var frestað til hausts. Í Vestmannaeyjum var málþing 23. apríl og á Eskifirði 30. apríl. Þann 11. júní er svo fyrirhugað málþing í Reykjavík og með haustinu í Stykkishólmi. Öll málþingin hafa borið yfirskriftina: Verkþekking við sjávarsíðuna – arfur til auðs.
Stjórnarfundir
Frá síðasta aðalfundi hafa verið haldnir 10 stjórnarfundir, 28/4, 6/8, 23/8, 12/11, 22/11 á árinu 2021 og 31/1, 12/2, 13/3, 23/3 á þessu ári. Flestir fundanna voru netfundir vegna Covid 19.
Fræðslufundir
Fræðslufundirnir Spegill fortíðar-silfur framtíðar féllu því miður niður vegna þeirra hafta er stjórnvöld settu þjóðinni vegna Covid 19. Vonandi verða horfurnar bjartari í haust og að allir komi sprækir af fjalli.
Útgáfa og vefupplýsingar
Að venju gaf Vitafélagið út tvö tölublöð af Fréttabréfinu árið 2021 og fyrra tölublað 2022 er komið út. Hefur félagið notið velvildar prentsmiðju Guðjóns Ó, sem reyndar hefur sameinast tveimur öðrum litlum prentsmiðjum og heitir nú Litróf. En sömu velvildar og afbragðs þjónustu er að mæta á þeim bæ og verðinu ávallt stillt í hóf – ef það er eitthvert.
Vefurinn www.vitafelagid.is
Ekkert hefur orðið úr þeirri vinnu að koma vefnum í betra horf og enn á eftir að koma efninu á rétta staði eftir að hún var “hökkuð” fyrir tveimur árum, Er þar um að kenna seinagangi stjórnarmanna. Væri vel þegið að góður aðili gæfi sig fram til að sjá um tæknimál félagsins.
Félagið heldur úti fésbókarsíðu sem nýtist vel við auglýsingu á fundum og viðburðum á vegum félagsins og fjölgar fésbókarvinum þess sem nú eru ríflega fjögur þúsund.
Norrænt samstarf
Eins og í öðru hefur norrænt samstarf eingöngu farið fram í netheimum. Ætlunin var að fulltrúar norrænu strandmenningarfélaganna hittust í Osló til að funda og fagna skráningu súðbyrðingsins á lista UNESCO þann 15. og 16. desember en ekkert varð af því vegna Covid. Vitafélagið-íslensk strandmenning var því eina félagið sem gat fagnað þessum áfanga – þó með takmörkunum væri, en einungis 50 manns máttu koma saman í Norræna húsinu. En helgina 6.-8. maí hittust svo fulltrúar norrænu strandmenningarfélaganna loks í Hróarskeldu og fögnuðu þessum merka áfanga og lögðu á ráðin um framhaldið. Þar var meðal annars ákveðið að halda veglegt málþing um súðbyrta báta í Hróarskeldu á næsta ári.
Umsóknir um styrki til starfseminnar
Félagið sótti um styrk til samstarfsráðherra Norðurlanda, Guðmundar Inga Kristjánssonar, til að sækja fund í Osló í desember 2021. Ekki hefur félaginu enn borist svar við því bréfi og ekkert varð af þeim fundi eins og fram hefur komið.
Félagið sótti einnig um styrk til uppbyggingarsjóðs á Flateyri til að standa straum af málþingi vestra. Ekki fékkst styrkur til þess.
Að lokum vil ég þakka bæði stjórnarmönnum og öðrum sem lagt hafa hönd á plóg fyrir frábært samstarf. Ég vona að sumarið fari um ykkur mjúkum höndum og hlakka til að sjá ykkur hress og Covidlaus í haust.
Sigurbjörg Árnadóttir, formaður