Vitafélagið - íslensk strandmenning

Skýrsla formanns 2023

Starfsárið 2022-2023

Helstu verkefni félagsins á liðnu starfsári voru:

Stjórnarfundir

Á árinu 2022 voru haldnir níu stjórnarfundir: 31. janúar, 12. febrúar, 13. mars, 21. júlí, 29. júlí, 15. ágúst, 30. ágúst, 9. september og 2. Nóvember.

Spegill fortíðar – silfur framtíðar

Starfsár félagsins fór hægt af stað. Covid-slen virtist enn hrjá þjóðina og hún ekki búin að átta sig á að leyfilegt er að fara út úr húsi til að hitta mann og annan.

Félagið hóf vetrarstarfið með málþingi í Sjóminjasafni Reykjavíkur laugardaginn 17. september undir sömu yfirskrift og annars staðar á landsbyggðinni: Verkþekking við sjávarsíðuna – arfur til auðs.Til liðs við sig fékk félagið Minjastofnun Íslands og Sjóminjasafnið í Reykjavík. Fundarstjóri var Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar en erindi fluttu: Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, Hrafnkell Marinósson, kennari við Tækniskólann í Reykjavík, Gunnar Hersveinn hjá Strandróðrafélaginu Brandi, Andrés Skúlason formaður Fornminjaverndar og Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins-íslenskrar strandmenningar.

Umfjöllunarefnið var súðbyrðingurinn en einungis fjórum mánuðum eftir að UNESCO tók handverk og hefðir við smíði súðbyrtra báta inn á lista yfir menningarerfðir mannskyns sem ekki mega glatast kom tillaga frá ráðherra háskóla – og nýsköpunar um að fella niður löggildingu námsins. Þrátt fyrir mótmæli varð sú raunin þannig að nú er framtíð bátasmíðar í landinu allt annað en björt.

Á árinu tókst loks að ljúka málþingunum á landsbyggðinni sem öll báru yfirskriftina Verkþekking við sjávarsíðuna - arfur til auðs og komu í stað mánaðarlegra fræðslufunda í Reykjavík (Spegill fortíðar – silfur framtíðar). 2. apríl var haldið málþing á Flateyri þar sem framsögu héldu: Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, Eyþór Jóvinsson, frumkvöðull og bóksali á Flateyri, Einar Jóhann Lárusson, nemi í bátasmíði, Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins og Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, sem tók að sér að lesa erindi Rúnars Leifssonar sérfræðings hjá Menningarráðuneytinu, auk þess að vera fundarstjóri.

Á Eskifirði var málþingið haldið 9. apríl og þar stigu í pontu: Smári Geirsson, Þórður Vilbergsson, Einar Jóhann Lárusson, Sigurbjörg Árnadóttir og Eydís Ásbjörnsdóttir, forseti bæjarstjórnar, flutti erindi Rúnars Leifssonar, auk þess að vera fundarsstjóri. Í Stykkishólmi var fundað 1. október og setti Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri málþingið. Aðrir sem erindi fluttu voru Þorvaldur Friðriksson, Einar Jóhann Lárusson, Sigurður Páll Jónsson og Sigurbjörg Árnadóttir. Fundarstjóri var Ragnhildur Sigurðardóttir.

Fulltrúar málþinga á Akureyri og Siglufirði mættu svo suður í Sjóminjasafnið og fluttu sín erindi sem þau höfðu áður flutt í heimabyggð. Siglfirðingar riðu á vaðið 4. Október. Örlygur Kristfinnsson og Kristína R. Berman fluttu sín erindi sem þau höfðu áður flutt í heimabyggð. Akureyringar voru næstir á dagskrá 2. nóvember. Þá voru það Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins og Linda María Ásgeirsdóttir, menningarfrömuður í Hrísey, sem fræddu gesti um Eyjafjörðinn. 
Fámennt var á þessum fyrstu fundum í Reykjavík þannig að ákveðið var að kalla til þjóðþekkta einstaklinga frá Vestmannaeyjum og mættu til leiks í febrúar þeir Ásmundur Friðriksson, alþingismaður og rithöfundur og Kristinn R. Ólafsson, sagnamaður, útvarps-, og leiðsögumaður. Er skemmst frá því að segja að loks var húsfyllir eins og verið hafði fyrir heimsfaraldur.

Fullt hús var einnig á fræðslufundinum 1. mars þar sem Snæfellsnesið og Vesturland var til umræðu hjá þeim Ragnhildi Sigurðardóttur framkvæmdastjóra Svæðisgarðsins, og Þorvaldi Friðrikssyni, fornleifafræðingi og rithöfundi. Vetrardagsskránni lauk svo 12. apríl með Vestfirðingunum Lilju Rafney Guðmundsdóttur sem talaði um auð vestfirska stranda, Maríu Júlíu og Eyþóri Jóvinssyni, sem sagði fundargestum frá því hvernig vernda má, nýta og græða á sögunni.

Hafið, fjaran og fólkið

Þar sem málþing voru haldin vítt og breitt um landsbyggðina í stað fyrirlestra í Reykjavík þá var ekkert sérstakt málþing á vormánuðum 2022 – önnur en á Eskifirði og á Flateyri.

Ekki stendur heldur til að hafa málþing nú í maí og er þar um að kenna tímaskorti stjórnarmanna.

Norrænt og alþjóðlegt samstarf

Fulltrúar norrænu strandmenningarfélaganna hittust í fyrsta sinn eftir Covid faraldur helgina 6.–8. maí 2022 og lögðu m.a. á ráðin um ráðstefnu sem halda á dagana 21.-22. september 2023 í Hróarskeldu og Holbæk.

Nokkrir norrænir fundir hafa verið haldnir í netheimum og í júníbyrjun verður formaður félagsins á fundi í Færeyjum.

Ráðstefna á vegum norrænu strandmenningarfélaganna og safna verður haldin í Hróarskeldu og Holbæk dagana 21.-23. september 2023. Þar verður þeim áfanga fagnað að súðbyrðingurinn hafi verið tekinn á lista UNESCO og lagt á ráðin um framhaldið.

Helgi Máni Sigurðsson fór á ráðstefnu Alþjóðaráðs um minnismerki og sögustaði,

ICOMOS, í júní 2022 sem haldin var í Tallinn. Þar var haldinn fjöldi fróðlegra erinda, sem flest tengdust sjó- og strandmenningu. M.a. fjallaði Helgi um 10 elstu fornbáta á Íslandi. Einnig var farið í áhugaverðar skoðunarferðir víðs vegar um landið. Vitafélagið greiddi þriðjung af útlögðum kostnaði.

Útgáfa og vefupplýsingar

Að venju gaf Vitafélagið út tvö tölublöð af Fréttabréfinu árið 2022 og fyrra tölublað 2023 er komið út. Eins og áður hefur félagið notið velvildar prentsmiðju Guðjóns Ó, sem reyndar hefur sameinast tveimur öðrum litlum prentsmiðjum og heitir nú Litróf. En sömu velvildar og afbragðs þjónustu er að mæta á þeim bæ og verðinu ávallt stillt í hóf – ef það er eitthvert.

Þar sem stjórnarmönnum var mjög misboðið þegar ráðherra háskóla- og nýsköpunar ákvað að fella niður löggildinu á námi í bátasmíði, var ákveðið að haustblaðið yrði veglegra en áður með áherslu á súðbyrðinginn. Það var því þrefalt blað sem leit dagsins ljós á haustmánuðum 2022 og aftur er þrefalt blað komið út nú á vormánuðum.

Félagið fékk Veigu Grétarsdóttur til að taka myndir af vitum landsins og er nú unnið að því að útbúa þær til prentunar á spil. Sigrún Klara og Gunnhildur völdu 52 vita sem ljósmyndafyrirsætur og var leitað styrkja hjá sveitarfélögunum. Tuttugu þúsund krónur fyrir hvern vita sem valinn var innan sveitafélagsins. Heimtur urðu einhverjar en ljóst að félagið þarf að leggja fram talsvert fé áður en spilastokkarnir líta dagsins ljós. Stjórnarmenn eru þess þó fullvissir að spilin muni seljast vel, en spilin sem gefin voru út með margskonar myndum sem teknar voru við sjávarsíðuna eru löngu uppseld.

Vefurinn www.vitafelagid.is

Ekkert hefur orðið úr þeirri vinnu að koma heimasíðunni í betra horf og enn á eftir að koma efninu á rétta staði á vefnum eftir að hún var síðast “hökkuð” fyrir þremur árum, er þar um að kenna seinagangi stjórnarmanna. Væri vel þegið að góður aðili gæfi sig fram til að sjá um tæknimál félagsins.

Facebook

Félagið heldur úti fésbókarsíðu sem nýtist vel við auglýsingu á fundum og viðburðum á vegum félagsins og fjölgar fésbókarvinum þess sem nú eru ríflega fjögur þúsund.

Umsóknir um styrki til starfseminnar

Félagið sótti um styrk til Lilju Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarráðherra. Ekkert svar hefur enn borist og ráðuneytið auglýsti hvorki né úthlutaði styrkjum á síðasta ári.

Félagið sótti um styrk á síðasta ári til sænsk-íslenska samstarfssjóðsins og fékk vilyrði fyrir 7000 SEK til að skoða bátasmíði í sænskum lýðskólum og fl. Fyrir þessa aura fara til Stokkhólms mánudaginn 1. maí: Aníta Elefsen á Síldarminjasafninu Siglufirði, Birkir Þór Guðmundsson, bátasmiður og stjórnarmaður í Vitafélaginu, Einar Jóhann Lárusson, bátasmiður og Hrafnkell Marinósson, kennari í bátasmíði, sem kostaður verður af Tækniskólanum.

Að lokum vil ég þakka bæði stjórnarmönnum og öðrum sem lagt hafa hönd á plóg fyrir frábært samstarf. Ég vona að sumarið fari um ykkur mjúkum höndum og hlakka til að sjá ykkur hress og full orku í haust.

Sigurbjörg Árnadóttir, formaður