Norræni súðbyrðinga-sáttmálinn Sáttmáli um varðveislu norrænna súðbyrðinga
Kynnt á ráðstefnu um norrænar súðbyrðingahefðir, Hróarskeldu og Holbæk, 21. – 22. september 2023
Norræni stýrihópurinn um skráningu á norrænum súðbyrðingahefðum á fulltrúalista Menningarmálastofnunar Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO), yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns, hefur undirbúið þennan sáttmála og samþykkt eftirfarandi:
Inngangur:
Súðbyrðingahefðirnar eru ómissandi hluti af menningararfi íbúa Norðurlandanna, þar á meðal frumbyggja og minnihlutahópa.
Varðveita verður norrænar súðbyrðingahefðir sem lifandi menningararfleifð.
Varðveisla norrænna súðbyrðingahefða skal byggja á samþykkt UNESCO um verndun hins
óáþreifanlega menningararfs.
Varðveisla norrænna súðbyrðingahefða verður að byggjast á sjálfbærnimarkmiðum
Sameinuðu þjóðanna.
Stuðla verður að varðveislu norrænna súðbyrðingahefða sem lifandi menningararfs með
bestu starfsvenjum á sviði sjálfbærni og styðjandi umhverfis, rammaskilyrða, úrræða og
umhverfis til að iðka hefðina.
Hlutum af norrænu súðbyrðingaarfleifðinni er ógnað. Það er þörf á verndaraðgerðum nú
þegar með viðeigandi úrræðum og stuðningi til réttrar verndar.
Markmið
1. grein – Markmið
Tilgangur sáttmálans er að stuðla að og tryggja vernd norrænna súðbyrðinga sem lifandi menningararfs.
2. grein – Meginreglur um vernd
Leiðbeinandi reglur um flutning og framhald á norrænu súðbyrðingahefðunum á að hanna í sameiningu á norrænum vettvangi. Þær eiga að stuðla að vernd á staðbundnum súðbyrðingahefðum með áherslu á staðbundnar byggingarvenjur og notkun.
Skilgreiningar
3. grein – Súðbyrðingur
Báturinn, sem smíðaður er með þunnum fjölum, er að finna í mörgum afbrigðum á norrænum svæðum. Bátaborðin eru sameinuð með járn-, kopar-, eða trénöglum en einnig er hægt að reima þau saman með lindbasti, rótum eða öðru. Þeir eiga það sameiginlegt að neðri brún fjalar leggst ofan á efri brún næstu fjalar fyrir neðan þannig að borðin skarast. Nú, sem fyrr, smíðar bátasmiðurinn bátinn samkvæmt staðbundnum smíðavenjum við náttúrulegar aðstæður. Nálægð við réttar náttúruauðlindir er aðalatriðið. Bátasmiðurinn leitar oft sjálfur eftir trjánum sem hann þarf í skóginum og gerir miklar kröfur til gæða efnisins. Þessi byggingaraðferð er að mestu leyti sameiginleg fyrir allar tegundir súðbyrðinga á öllum Norðurlöndunum.
4. grein – Óáþreifanlegur menningararfur og lifandi hefð
Skilja verður norrænar súðbyrðingahefðir sem óáþreifanlegan menningararf og lifandi hefð sem gekk frá kynslóð til kynslóðar og þróaðist í nokkur þúsund ár. Súðbyrðingahefðirnar eru fjölbreyttar og aðlagaðar að staðbundnum aðstæðum ásamt sjálfbærri notkun. Bátasmiðir sem styðjast við hefðir, svæðisbundin félög, söfn, menntastofnanir og önnur samfélög á Norðurlöndunum bera þekkinguna áfram á byggingu og notkun súðbyrðinga með starfsemi sinni eins og ferðum, róðri, siglingum, viðburðum, veiðum, þjálfun og sjálfbærri útivist.
5. grein – Tengd þekkingarsvið
Hin hefðbundna þekking og færni handverksmanna sem framleiða reipi, segl, bátasaum, tjöru, hamp, hörfræolíu, verkfæri og önnur efni sem þarf til að byggja eða viðhalda súðbyrðingum er einnig hluti af súðbyrðingahefðinni.
6. grein – Landfræðileg staðsetning
Einstaklingar, umhverfi, samtök og stofnanir sem færa áfram þekkingu eða auðvelda starfsemi sem tengist súðbyrðingum er að finna á strand-, og sjávarsvæðum, í fjörðum og á eyjum, við ár og farvegi í Danmörku, Færeyjum, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og á Álandseyjum. Samískir og kvenskir hefðarberar og samfélög er að finna á norðurslóðum og á heimskautasvæðum í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Framkvæmdir og viðhald er staðbundið í bátaskýlum, á verkstæðum, í strandmenningarmiðstöðvum og á söfnum. Súðbyrðingahefðirnar eru einnig stundaðar á nálægum svæðum fyrir utan Norðurlöndin, til dæmis í löndunum í kringum Eystrasaltið og við Norðursjó.
7. grein – Ítarleg skilgreining í færslutexta
Aðalheimild fyrir ítarlegri skilgreiningu á hvað norrænar súðbyrðingahefðir eru, má finna í skjalinu „UNESCO, 16.COM 8.b., 1. kafli – Auðkenning og skilgreining á þáttum“.
8. grein – Hefðarberar halda utan um menningararfinn
Haldið er utan um óáþreifanlegan menningararf sem tengist súðbyrðingahefðinni og komið áfram af hefðarberum og iðkendunum sjálfum. Það eru þeir sem eiga rétt á að viðurkenna norrænar súðbyrðingahefðir sem hluta af sínum menningararfi. Þetta verður að vera grundvöllur framtíðarvinnu með verndun.
Vernd með notkun
9. grein – vernd með notkun
Meginreglan um miðlun þekkingar um norrænar súðbyrðingahefðir eru vernd með notkun.
10. grein – Hefðbundin þekking
Þekkingin á norrænum súðbyrðingahefðum færist frá kynslóð til kynslóðar. Þetta sjónarhorn mun leggja grunn að framtíðarstarfi með verndun. Bygging og notkun þarf að byggjast á hefðbundinni staðkunnáttu eftir því sem kostur er.
11. grein - Markaðurinn
Til að hefðin lifi áfram verða bátasmiðir að geta lifað af sinni starfsemi. Fyrir þetta verður að þróa og styðja við atvinnustarfsemi innan greinarinnar. Sáttmálinn á að hvetja til sölu og markaðssetningar og þar með stuðla að byggingu og viðhaldi á fleiri súðbyrðingum og notkun þeirra.
Ábyrgð, stuðningur og rammaskilyrði
12. grein – Úrræði, stuðningur og rammaskilyrði
Þróa þarf góðan námsvettvang, rammaskilyrði og stuðning við svæðisbundna hópa sem gera þeim kleift að iðka súðbyrðingahefðir. Það felur einnig í sér verklegt nám og aðstöðu eins og bátaskýli, verkstæði, strandmenningarstöðvar og söfn til bygginga, viðhalds og notkunar sem gefa góða umgjörð til þekkingar og kennslu. Fyrirtækin eru einnig háð stuðningskerfum frá hinu opinbera ásamt möguleikum til menntunar.
13. grein – Ábyrgð
Stjórnvöld á Norðurlöndunum bera formlega ábyrgð á því að mæta þeim nauðsynlegu ráðstöfunum til að tryggja vernd hins óáþreifanlega menningararfs sem er að finna á þeirra yfirráðasvæði. Vernd í þessu samhengi þýðir ráðstafanir til að standa vörð um hagkvæmni norrænnar súðbyrðingahefðar, þar með talið kortlagningu, skráningu, rannsóknir, varðveislu, verndun, eflingu, styrki og framhald,
sérstaklega með formlegri og óformlegri menntun. Þetta á að gera með sem mestri þátttöku frá nærumhverfinu, hópum og einstaklingum sem skapa og viðhalda þekkingu og stuðla að starfsháttum sem tengjast norrænu súðbyrðingahefðunum.
14. grein – Þörf á tafarlausum aðgerðum
Ákveðnum þáttum af norrænu súðbyrðingaarfleifðinni er ógnað. Þörf er á tafarlausum aðgerðum nú þegar með úthlutun viðeigandi styrkja og fjármagns til að tryggja rétta verndun.
15. grein – Viðurkennd skjöl
Við hlið sáttmála UNESCO um verndun óáþreifanlega menningararfsins byggir norræni súðbyrðingasáttmálinn um áletrun norrænna súðbyrðingahefða á fulltrúaskrá UNESCO yfir óáþreifanlegum menningararfi mannkyns. Með tilvísun í skjalið „Norrænar súðbyrðingahefðir, áletrun, UNESCO, 16.COM 8.b“.
Þetta tvennt, samnings-, og yfirskriftartexta, ber að skilja sem skjöl frá opinberum stjórnvöldum fyrir framtíðarvinnu við verndun og stjórnun norrænna súðbyrðingahefða.
16. grein – Norrænar og innlendar verndunaráætlanir
Fylgja þarf ákvæðum í þessum sáttmála eftir með reglubundnum verndaráætlunum bæði á Norðurlöndunum og á landsvísu í hverju landanna fyrir sig. Tímabil verndaráætlananna skulu fylgja áætlun aðildarríkjanna um skýrslugjöf til UNESCO þannig að ljóst sé hvaða aðgerðir og áætlanir eru innleiddar til að tryggja almennilega vernd og rétta stjórnun norrænna súðbyrðingahefða í skjóli ábyrgra yfirvalda og samfélaga.
_____________________________________________________________________
Eftirtaldir aðilar tóku þátt í starfi stýrihóps við gerð sáttmálans um verndun norrænna súðbyrðingahefða:
Anders Bolmstedt (Föreningen Allmogebåtar, Svíþjóð)
Astrid Olhagen (Ålands Skötsbåtförening, Álandseyjar)
Fredrik Leijonhufvud (Skeppsholmens Folkhögskola, Svíþjóð)
Heini Hátún (Færeyjar)
Johanna Björkholm (KulturÖsterbotten, Finnland)
Kirsten "Pipsen" Monrad Hansen (Han Herred Havbåde, Danmörk) Kristina Djurhus Christiansen (Nasjonalmuseet, Færeyjar)
Lars Leijon (Föreningen allmogebåtar, Svíþjóð)
Ove Stødle (Mearrasiida/Sjøsamisk kompetansesenter, Noregur/Sápmi) Sami Uotila (Suomen puuveneilijät, Finnland)
Sigurbjörg Árnadóttir (Vitafélagið-íslensk strandmenningm, Ísland) Søren Nielsen (Vikingeskibsmuseet, Danmörk)
Tore Friis-Olsen (Forbundet KYSTEN, Noregur) Tove Aurdal Hjellnes (Forbundet KYSTEN, Noregur) Ture Møller (Kystliv Holbæk, Danmörk)
Sáttmálinn er ritaður á eftirfarandi norrænum tungumálum; dönsku, finnsku, færeysku, íslensku, kvensku, norður-samísku, norsku og sænsku ásamt ensku og frönsku. Allar útgáfur hafa sama gildi.
5. september 2023, Norræni stýrihópurinn um innritun norrænna súðbyrðingahefða á fulltrúalista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns.