Vitafélagið-íslensk strandmenning
Skýrsla stjórnar 2020
Starfsárið 2019-2020
Helstu verkefni félagsins á liðnu starfsári voru:
Stjórnin hélt sex stjórnarfundi, 2. september, 29. október, 4. desember, 11. desember, 12. febrúar og 10. mars.
Spegill fortíðar – silfur framtíðar
Dagskrá spegilsins var haldin í húsnæði Sjóstangaveiðifélagsins að Grandagarði 18. Viðfangsefni vetrarins var: Landhelgi Íslands og efnahagslögsaga landsins.
Eftirfarandi erindi voru flutt:
2. október 2019
Landhelgi, efnahagslögsaga og Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna - Tómas H. Heiðar, hafréttardómari Alþjóðahafréttardómstólsins í Hamborg.
Hvað eru landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunnur? Bylting hafréttar á 20. öld - Snjólaug Árnadóttir, nýdoktor við Háskólann í Reykjavík og stundakennari við HÍ.
6. nóvember 2019
Landhelgisgæslan, stofnun og saga - Gylfi Geirsson og aðrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar.
8. janúar 2020
Útfærsla landhelginnar frá 4 mílum 1952 og að 200 sjómílum 1975 - Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og forseti Hugvísindasviðs, Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík.
5. febrúar 2020
Hagræn þýðing útfærslu efnahagslögsögunnar - Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði við Háskóla Íslands.
Einnig ætlaði Jóhann Sigurjónsson, sjávarlíffræðingur og fyrrverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar að vera með erindi en forfallaðist vegna veikinda.
4. mars 2020
Sögur úr landhelgisstríðunum. Útfærsla landhelginnar 1. september 1958 og átökin við breska togara og herskip -Pálmi Hlöðversson, fyrrverandi skipherra. Herþjónustu líkast: um minningar og upplifanir kvenna sem bundnar voru varðskipsmönnum fjölskylduböndum - Saga Ólafsdóttir, sagnfræðingur.
Og vegna COVID-19 varð ekkert af síðasta fyrirlestri vetrarins sem vera átti 1. apríl. Upphaflega ætlaði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, að halda hann undir yfirskriftinni „Að eiga úthaf“. Guðni hafði hins vegar boðað forföll þar sem hann átti að vera erlendis í embættiserindum, en væntanlega hefur hann bara verið heima á Bessastöðum í samkomubanni við innlenda sem erlenda gesti.
Hafið, fjaran og fólkið
Að þessu sinni var vorþing félagsins haldið laugardaginn 18. maí 2019 í Blábankanum á Þingeyri í samstarfi við Vestfjarðastofu, Ísafjarðarbæ og Byggðasafn Vestfjarða. Að venju bar málþingið yfirskriftina „Hafið, fjaran og fólkið.“ Dagskráin hófst klukkan 13:00 og var eftirfarandi:
Kl. 13:00 Setning – Agnes Arnardóttir, verkefnastjóri verkefnisins
„Öll vötn til Dýrafjarðar“
Kl. 13:05-13:30 Kynning á Vitafélaginu-íslensk strandmenning og Nordisk kustkultur - Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Vitafélagsins-íslensk strandmenning og Nordisk kustkultur
Kl. 13:30-13:55 Framtíð strandmenningar á Vestfjörðum og nýting trébáta í sveitarfélaginu - Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðar
Kl. 13:55-14:20 Framkvæmdir og fornminjar - Óskar Leifur Arnarsson, fornleifafræðingur
Kl. 14:20-14:45 Sjósókn fyrri tíma - Valdimar Elíasson, bátasmiður
Kl. 14:45-15:30 Kaffihlé og umræður
Kl. 15:30-16:10 Fundið í fjöru – heimsókn á vinnustofu Kristínar Þórunnar Helgadóttur
Kl. 16:10- Vettvangsferð undir leiðsögn Helgu Þórsdóttur, forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða um Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar og fl.
Fundarstjóri: Agnes Arnardóttir, verkefnastjóri.
Birkir Þór Guðmundsson, bátasmiður með meiru, kom frá Flateyri með súðbyrðinginn Ríkey frá Hrauni á Ingjaldssandi þannig að fundarmenn gátu skoðað þennan dýrgrip. Ríkey var byggð árið 1920 og endurbyggð 2013-14 af Birki Þór Guðmundssyni.
Veðurguðirnir léku við hvern sinn fingur og var málþingið vel sótt af heimamönnum. Einnig gerðu fimm af stjórnarmönnum Vitafélagsins sér ferð vestur og skoðuðu strandmenningu Vestfjarða í blíðskaparveðri.
Norrænt samstarf
Formaður sótti fund til Svíþjóðar um mánaðarmótin júní –júlí þar sem hann ásamt fulltrúum Svíþjóðar og Noregs fundaði um framtíð norræns samstarfs. Niðurstaða fundar var að Nordisk kustkultur hefur margsannað ágæti sitt þó svo að hlé verði gert á norrænum hátíðum og er vinnan við að koma súðbyrðingnum á heimsminjaskrá eitt dæmi þess. Stærsta norræna verkefnið sem unnið hefur verið af Nordisk kustkultur á liðnum árum er einmitt að fá handverkið við smíði súðbyrðinga sett á lista hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna - UNESCO - yfir óefnislegar erfðir mannkyns - þar sem skráð verður verklag, siðir, venjur og hættir sem tengjast norrænum súðbyrtum bátum. Hefðir sem borist hafa frá kynslóð til kynslóðar og munu hverfa verði þeim ekki við haldið. Norðurlöndin öll, ásamt sjálfstjórnarríkjunum Færeyjum og Álandseyjum, standa að tilnefningunni sem afhent var í París 25. mars 2020 og var undirrituð af ráðherrum mennta- og menningarmála ríkjanna. Þetta er fyrsta tilnefningin af Íslands hálfu og fyrsta samnorræna tilnefningin. Nú tekur við bið þar til í ársbyrjun 2022, þegar aðalnefnd UNESCO kveður upp sinn dóm um hvort tilnefningin fari á áðurnefndan lista.
Helgina 10.-12. janúar sótti formaður annan fund í Nordisk kustkultur sem að þessu sinni var haldinn í miðborg Kaupmannahafnar. Til hans mættu fulltrúar allra norrænu ríkjanna nema Færeyja og Grænlands. Niðurstaða þess fundar var að næsta stórmót samtakanna verði í Holbæk í Danmörku fyrrihluta árs 2022 þar sem áhersla verði á súðbyrðinginn og framtíð hans. Undirbúningur er þegar hafinn. Stefnt er að tveggja daga málþingi/ráðstefnu auk sýninga um smíði og aðrar hefðir í kringum súðbyrðinginn. Fundarmönnum var einnig tíðrætt um það hvernig hægt sé að fá enn fleiri að samtökunum Nordisk kustkultur og m.a. nefnt að sjóminjasöfn landanna mættu gjarnan vera sýnilegri. Stjórnarskipti urðu einnig í Nordisk Kustkultur og tók Tore Friis-Olsen í Kysten við formennsku af Sigurbjörgu Árnadóttur og Merete Ettrup, Danmörku við ritarastörfum af Kerstin Bergström, Svíþjóð.
Útgáfa og vefupplýsingar
Fréttabréf Vitafélagsins. Að venju gaf Vitafélagið út tvö tölublöð af Fréttabréfinu á starfsárinu. Eins og áður var það prentað og styrkt af Prentsmiðju Guðjóns Ó. Haustblaðinu fylgdi dagskrá vetrarins en vor/sumarblaðinu sem var óvenjuseint á ferð vegna Covid fylgdi aðalfundarboð og reikningur fyrir árgjaldi.
Vefurinn
www.vitafelagid.is Þó svo að ekki slegist um stjórnarsetu í félaginu þá virðist sem einhverjir séu haldnir miklum áhuga á vef félagsins. Í annað eða þriðja sinn var heimasíðan, sem verið hefur undir slóðinni vitafelagid.com, hökkuð. Því var ákveðið að vista hana á landinu enda verðmunur orðinn lítill. Hana er því nú að finna undir vitafelagid.is Þessi ótuktarskapur hefur kostað peninga en fyrst og fremst tíma. Hallgrímur Stefánsson tók að sér að hanna vefinn upp á nýtt og hefur hann ásamt formanni reynt að tína það helsta til sem þarna ætti að vera. Eitthvað vantar þó enn uppá að allt sé komið.
Facebook. Félagið notar Facebook einkum til að auglýsa viðburði og enn fjölgar fésbókarvinum þess sem nú eru ríflega fjögur þúsund.
Umsóknir um styrki til starfseminnar
Ekki varð félagið ríkt að styrkjaskrifum þetta árið. Sótt var til yfirvalda borgarinnar og ráðuneytis til rekstrarkostnaðar og um styrk til Menningarráðuneytisins til að kosta laun starfsmanns að hluta. Engir styrkir fengust.
Kvikmyndin Ljósmál
Heimildarkvikmyndin Ljósmál leit loksins dagsins ljós í Bíó Paradís, laugardaginn 9. nóvember 2019, eftir langa og mjög erfiða fæðingu. Myndin var sýnd daglega í viku í bíóinu og verður einnig sýnd á RÚV þegar fram líða stundir, þannig að fleiri en borgarbúar fái að njóta hennar og uppgötva hversu ung saga vitans er og hversu gríðarleg áhrif bygging þeirra hafði á þjóðarsöguna. Gerður var lokasamningur við kvikmyndaleikstjórann Einar Þór Gunnlaugsson og er myndin nú alfarið í eigu Vitafélagsins.
Höfundur handrits er einn stjórnarmanna Vitafélagsins, Kristján Sveinsson, sagnfræðingur.
Á þessum tímamótum var Magnús Skúlason, einn af framvörðum félagsins, gerður að heiðursfélaga Vitafélagsins – íslenskrar strandmenningar. Magnús er þekktur fyrir áræði, fyrir að fara stundum ótroðnar slóðir, fyrir að hrinda hlutunum í framkvæmd og það hefur hann margsannað sem stjórnarmaður í Vitafélaginu um árabil. Magnús var forstöðumaður Húsafriðunanefndar ríkisins þegar Vitafélagið var stofnað 2003, en Húsafriðunarnefnd var einn af stofnfélögum félagsins. Undir stjórn Magnúsar var gerð úttekt á vitum landsins og fyrstu sjö vitarnir friðlýstir 1. desember 2003. Magnús hefur tekið að sér leiðsögn í ferðum um landið til að fræða hópa erlendra ferðamanna sem sérstaklega hafa komið til að skoða vitasöguna. Hann hefur tekið þátt í nær öllum norrænu strandmenningarhátíðunum - sem nú eru orðnar sjö talsins - og staðið þar vaktina við að fræða erlenda gesti um sögu íslenskrar strandmenningar. Magnús átti stærstan þátt í því að gamli vitinn í Garði fékk aftur ljóshúsið sitt. Vitinn er næstelsti viti landsins og næstelsta steinhús landsins. Eftir andlitsupplyftinguna er vitinn ein aðal ljósmyndafyrirsæta Suðurnesja.
Eins og áður er ógerningur að hafa tölu á öllum þeim vinnustundum sem unnar hafa verið á vegum félagsins á liðnu ári, bæði af hálfu stjórnarmanna og öðrum. Allt er þetta gert í sjálfboðavinnu og svo er einnig með þá tugi fyrirlestra sem haldnir hafa verið á vegum félagsins í gegnum tíðina.
Að þessu sinni er aðalfundur félagsins haldinn óvenju seint vegna Covid-19, samkomubanns og tveggja metra reglunnar og af sömu ástæðu varð að aflýsa vorþingi félagsins sem halda átti á Snæfellsnesi.
Að lokum vil ég sérstaklega þakka þeim stjórnarmönnum, sem nú yfirgefa stjórn skútunnar eftir margra ára starf, fyrir einstaka samvinnu og ómetanlegt framlag til starfsins. Ykkar verður sárt saknað. Fyrirlesurum vetrarins færi ég þakkir fyrir allan fróðleikinn.
Megi sumarið færa okkur öllum gæfu og gengi og ég vona að þið fáið notið náttleysis við haf og strönd.
Sigurbjörg Árnadóttir, formaður