Bókin Fornbátar á Íslandi eftir Helga Mána Sigurðsson stjórnarmann í Vitafélaginu – íslensk strandmenning hlaut 600 þúsund í styrk frá Hagþenki. Í bókinni er fjallað um 190 fornbáta. Bókin nær þó ekki yfir alla fornbáta á Íslandi, heldur er þar aðallega fjallað um báta í vörslu safna, sýninga og setra ásamt báta sem smíðaðir voru fyrir 1950 og voru á skipaskrá Samgöngustofu, áður Siglingastofnunar, þ.e. voru sjófærir.
Hagþenkir styrkir bók um fornbáta
12. október sl. styrkti Hagþenkir, félag höfunda fræðirita, á myndarlegan hátt skrif bókarinnar Fornbátar á Íslandi eftir Helga Mána Sigurðsson, stjórnarmann í Vitafélaginu með fleiru. Styrkurinn var kr. 600.000,- sem bæði auðveldar útgáfu bókarinnar og er fagleg viðurkenning.
Tildrög bókarinnar voru þau að árið 2016 ákvað Samband íslenskra sjóminjasafna að setja saman skrá yfir fornbáta á Íslandi. Tilgangurinn með því var að varpa ljósi á stöðu bátavarðveislunnar í landinu og stuðla að bættri bátavernd. Ennfremur mundi hún auka þekkingu á þessum hluta menningararfsins og auðvelda frekari rannsóknir. Að skránni vann Helgi ásamt Ágústi Georgssyni.
Vinnu við Fornbátaskrána lauk í ársbyrjun 2019 og var hún þá orðin 832 blaðsíður að lengd. Vegna stærðarinnar var hún gefin út á netinu, hýst hjá Þjóðminjasafninu en yfirleitt nægir að slá inn leitarorðið fornbátaskrá. Fjöldi báta sem fjallað er um í henni er 190. Hún nær þó ekki yfir alla fornbáta á Íslandi, tekur einkum til báta í vörslu safna, sýninga og setra ásamt báta sem smíðaðir voru fyrir 1950 og voru á skipaskrá Samgöngustofu, áður Siglingastofnunar, þ.e. voru sjófærir.
Elstu bátarnir sem teknir hafa verið til varðveislu eru opnir árabátar. Þeir eru fjölbreyttur flokkur vegna mismunandi notkunar, náttúrulegra aðstæðna á hverjum stað og fleiri atriða. Þeir teljast mikilvægasti flokkurinn og sá sem auðveldast hefur verið að varðveita. Á 20. öldinni komu til sögunnar stærri bátar, plankabyggðir, vélknúnir, þilskip, stálskip o.s.frv. Allmörg sýnishorn þeirra eru einnig í fornbátaskránni.
Í þessari bók, Fornbátar á Íslandi, er fjallað um rúmlega fjórðung þeirra báta sem finna má í Fornbátaskránni, 57 alls. Upplýsingar eru ekki settar fram í skýrsluformi heldur samfelldu máli og bætt við ýmsum upplýsingum, ekki síst um notkun bátanna og notendur. Við val á bátunum voru ýmis atriði höfð í huga, svo sem aldur, sögulegt gildi og fjölbreytni. Af þessum bátum eru fiskibátar flestir, 43 talsins. Þar af eru árabátar rúmlega helmingurinn, hinir eru trillur, planabyggðir bátar o.s.frv. Bátar með önnur hlutverk eru 14, þ.e. flutningabátar, björgunarbátar, dráttarbátar, varðskip og skemmtibátar. Sumir bátarnir höfðu fleiri hlutverk en eitt.
Bókin verður gefin út af Skruddu á næsta ári, 2023.
HMS
Elsti íslenski fornbáturinn, Vigur-Breiður, fyrir framan bæjarhúsin í Vigur. Ljósm. Felicity Aston.