Óskar J. Sigurðsson

Fyrsti heiðursfélagi Vitafélagsins var vitavörðurinn Óskar J. Sigurðsson árið 2006. Óskar ól allan sinn aldur á Stórhöfða og sinnti margvíslegum störfum þar af óvenjulegri kostgæfni: gæslu vitans, fuglamerkingum, veðurathugunum og mengunarmælingum. Sonur hans, Pálmi Freyr, býr í Höfðanum og er fjórði ættliðurinn sem hefur gætt vitans, samfleytt síðan 1910. Sjálft vitavarðarstarfið var formlega verið lagt niður árið 2007 vegna þess hve tækninni fleygði fram. Árið 1997 var skráð í heimsmetabók Guinness að enginn einn maður í heiminum hefði merkt fleiri fugla en Óskar en slíkar merkingar eru mjög mikilvægt framlag til rannsókna á hátterni fugla. Árið 1997 hlaut Óskar svo Hina íslensku fálkaorðu.

100 ára afmæli Stórhöfðavita

Á hundrað ára afmæli Stórhöfðavita árið 2006 var blásið til veislu í Vestmannaeyjum. Formður Vitafélagsins, Sigurbjörg Árnadóttir mætti þar fyrir hönd félagsins og gerði vitavörðinn Óskar J. Sigurðsson að heiðursfélaga félagsins.
Við þetta tækifæri flutti Sigurbjörg eftir farandi ávarp:
Samgönguráðherra, vitavörður, bæjarstjórn, ágæta samkoma.

Það er mér bæði heiður og ánægja að fá að taka þátt í þessum hátíðarhöldum með ykkur. Hundrað ár er ekki langur tími í sögu þjóðar en síðustu hundrað árin hafa þó verið byltingarkennd í allri tækni og þar er fjarskiptatæknin ekki undanskilin. Saga íslenska vitans er ung að árum og um margt nokkuð frábrugðin því sem gerist í grannríkjum okkar. En engu að síður er hún merkileg og ekki síðri en annarra. Hér eins og annars staðar þar sem vitar voru reistir, urðu þeir til þess að bæta og breyta atvinnuháttum og auðvelda samgöngur. Þeir voru tákn framfara. Og ekki má gleyma örygginu sem þeir veittu sjófarendum. Nauðsynlegt samskiptatæki síns tíma rétt eins og farsíminn eða tölvan eru í dag.

Hlutverk vitavarðarins hefur mér alltaf fundist eitt merkilegasta starf sem til er. Þetta hlutverk að gæta lífs og ljóss og fjarstýra sjófarendum. Jafnframt felur þetta hlutverk í sér að passa það að enginn komi í námunda við vitann – í það minnsta ekki af sjó. Vitar standa nær undantekningarlaust á einstaklega fallegum stöðum. Oft á ystu nöf með faðminn mót hafi og iðandi líf við strönd, en einmitt þess vegna eru þeir alltaf einhvern veginn á mörkum alls, á mörkum ljóss og skugga, lands og sjávar, lífs og dauða.

Á Stórhöfðavita hefur sama fjölskyldan gegnt þessu hlutverki ljósberans frá árinu 1910. Og hér er enn starfandi vitavörður – sá eini á landinu og einn af fáum starfandi vitavörðum á Norðurlöndum. Finnar og Svíar eiga enga eftir, í Noregi láta þeir síðustu af störfum á næsta ári og í Danmörku hverfa þeir einn af öðrum. Starf vitavarðarins verður því brátt eitt þeirra fjölmörgu starfa þar sem tæknin hefur leyst mannshöndina af hólmi, starf sem senn heyrir sögunni til.

Sem virðingarvott við störf íslenskra vitavarða og áratugalangt óeigingjarnt starf Óskars Jakobs Sigurðssonar, síðasta vitavarðar landsins, vill Íslenska vitafélagið hér með gera Óskar að fyrsta heiðursfélaga félagsins.

Við Vestmannaeyinga vil ég segja, að þó svo sá tími komi þegar enginn vitavörður verður lengur við iðju sína á Stórhöfða, þá er vitinn, saga hans og þeirra sem þar störfuðu, órjúfanlegur hluti af menningarsögu þjóðarinnar. Með fortíðarspegilinn að leiðarljósi getur vitinn orðið einn af máttarstólpum nýsköpunar og eflt atvinnu rétt eins og hann gerði á þeim tíma þegar hann var byggður.

Ég vil biðja bæjarstjórann að koma og tak á móti þessari litlu gjöf frá Íslenska vitafélaginu. Þetta er mynd af síðasta vitaverðinum Óskari á Stórhöfða.

Njótið vel og takk fyrir mig.

Vitafélagið-íslensk strandmenning - vitafelagid(á)vitafelagid.is