Vitafélagið – íslensk strandmenning
Laugardaginn 26. apríl 2003 hittist hópur fólks í húsakynnum Siglingastofnunnar í Kópavogi til að stofna fyrstu frjálsu félagasamtökin á Íslandi, sem hefði það að markmiði að efla áhuga og vitund fólks um þann auð sem er að finna við strendur landsins. Eftir nokkrar vangaveltur stofnfélaga, sem voru um 60, var ákveðið að félagið fengi heitið Íslenska vitafélagið.
Vitinn væri vörður lífs og fengi nú það hlutverk að auki að varðveita strandmenninguna. Ástæða nafngiftarinnar var einnig vissan um að nafnið fengi athygli, allir vita hvaða hlutverki vitinn gegnir á meðan orðið strandmenning var með öllu óþekkt í íslenskri tungu.
Strandmenning er nýyrði sem Vitafélagið hefur kynnt og lagt áherslu á í allri sinni starfsemi. Á meðal stofnfélaga Vitafélagsins eru; Fornleifavernd og Húsafriðunarnefnd, sem nú hafa verið sameinaðar í Minjastofnun Íslands, Siglingastofnun, Síldarminjasafnið og Þjóðminjasafnið auk einstaklinga. Síðan hafa bæst við atvinnuþróunarfélög, söfn og félög auk fjölda einstaklinga.
Frá upphafi var meginmarkmið félagsins að efla vitund Íslendinga um þau miklu menningarverðmæti sem liggja í og við strendur landsins.
Í lögum félagsins voru markmið þess skilgreind þannig:
• auka áhuga og þekkingu á vitum og öðrum strandminjum.
• vinna að söfnun, skráningu og miðlun upplýsinga um vita og strandminjar.
• stuðla að verndun vita og strandminja sem mikilvægum hluta af menningararfi þjóðarinnar.
• stuðla að fjölbreytilegri notkun vitans og annarra strandminja sem samrýmist verndun og sögu viðkomandi staðar.
• koma á samvinnu við minjasöfn og aðrar opinberar stofnanir.
• koma á samvinnu við erlend strandmenningarfélög, vitafélög og stofnanir með sambærileg markmið. Markmið félagsins er einnig að viðhalda handverki og annarri þekkingu á sviði strandmenningar með verndun og nýtingu hennar að leiðarljósi, til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar.
Nokkrum mánuðum eftir stofnfund félagsins tók formaður þess þátt í norrænni ráðstefnu um vita og strandmenningu sem haldin var í Noregi. Auk formannsins, Sigurbjargar Árnadóttur, tóku Magnús Skúlason, forstöðumaður Húsfriðunarnefndar ríkisins og Guðmundur Lúther Hafsteinsson, arkitek þátt í ráðstefnunni. Æ, síðan hefur samstarf við norræn grasrótarfélög á sviði strandmenningar verið mjög öflugt og gott. Auk ráðstefnunnar í Noregi hefur félagið verið samstarfsaðili að norrænni ráðstefnu á Álandseyjum og staðið fyrir norrænni ráðstefnu sem haldin var í Stykkishólmi 2006 og ráðstefnu á Hótel sögu haustið 2007 í samstarfi við forkólfa íslenskrar ferðaþjónustu.
Nafnabreytingar
Upphaflega fékk félagið heitið Íslenska vitafélagið. Á aðalfundi félagsins 2009 var ákveðið að undirstrika enn frekar að félagið legði áherslu á alla þætti strandmenningar og því fékk félagið heitið Íslenska vitafélagið – félag um íslenska strandmenningu.
Enn var nafni félagsins breytt á aðalfundi 2015 og heitir síðan
Vitafélagið – íslensk strandmenning.
Félagsaðild og árgjald
Aðild að félaginu er tvennskonar, annars vegar einstaklingsaðild og hins vegar geta félög og fyrirtæki gerst aðilar. Allir félagsmenn hafa rétt til stjórnarsetu og geta haft áhrif á starf félagsins.
Félagsmenn fá sent fréttablað félagsins tvisvar á ári, haust og vor. Með haustblaðinu er send út dagskrá félagsins fyrir veturinn og með vorblaðinu er send út gíróseðill til að innheimta félagsgjald. Einnig eru sendar út fréttatilkynningar til að minna á félagsfundi en fréttatilkynningarnar berast aðeins til þeirra sem hafa skráð netfang hjá félaginu. Eru allir hvattir til að senda félaginu netfang sitt til þess að fá fréttir.
Árgjald einstaklinga er kr. 2500.
Árgjald stofnana, félaga og fyrirtækja er kr. 6000.
Árgjald er innheimt einu sinni á ári. Það er að vori og gíróseðill fylgir vorhefti fréttablaðs.
Sækja um félagsaðild