Málþing á Akranesi mánudaginn 4. mars 2024 frá kl. 13:00 til 17:15. Fyrirlestrar, tónlist og umræður um stöðu og fjölbreytileika íslenskrar strandmenningar.

Afurðir úr töfrum hafsins. Er hægt að framleiða fatnað úr þara og roði? Þessum spurningum og ýmsum fleirum svara lista- og handverkskonurnar Katrín Þorvaldsdóttir og Arndís Jóhannsdóttir í fyrirlestrum sínum og spjalli í Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, miðvikudagskvöldið 6. mars kl. 20:00

Katrín Þorvaldsdóttir hefur unnið með þang og þara í þrjátíu ár. Undanfarin ár hefur hún verið að gera tilraunir með að nota þetta náttúrulega efni til ýmiskonar listsköpunar. Hún fer niður í fjöru og safnar saman þaranum sem þar flýtur og skapar úr honum hinar ólíklegustu myndir. Hún segir þangið hafa alveg sérstakan karakter sem hefur mikil áhrif á alla listsköpun. Katrín er vel menntuð á listasviðinu, stundaði nám í Danmörku og á Spáni. Hún hefur unnið í hin ýmsu listform. Hún hefur leikið á sviði, stýrt brúðuleikhúsi, unnið fyrir sjónvarp og haldið sýningar, bæði ein og í samvinnu við aðra listamenn.

Fiskroð er til margskonar hluta nýtilegt. Það hefur Arndís Jóhannsdóttir sannað fyrir margt löngu. Í fyrirlestri sínum sýnir hún og segir frá notkun sinni á roði úr ýmsum fisktegundum til gerðar á nytjalist. Í höndum hennar verða til skartgripir, veski, töskur og fleira úr flestum tegundum roðs. Arndís lærði söðlasmíði í London og vann við söðlasmíði fyrstu árin eftir heimkomuna. Síðar snéri hún sér að roði og hefur sýnt afurðir sínar úr roði á hátíðum og sýningum víða í Evrópu.

Spegill fortíðar – silfur framtíðar

Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8

miðvikudaginn 7. febrúar kl. 20:00

Trébátar hafa sál – Ágúst Österby, trébátasérfræðingur

Ágúst er húsasmíðameistari og byggingafræðingur, en hefur helgað stórum hluta ævinnar varðveislu og smíði trébáta. Hann á ellefu slíka.

Í fyrirlestri sínum fjallar hann um hvaða þýðingu trébátar höfðu og hafa  fyrir Íslendinga. Hvernig unnt er að auðvelda viðhald og betri endingu slíkra báta og ávinning þess að tengja saman söfn og iðnskóla.

Framtíð skipasmíða á Íslandi– Daníel Friðriksson, skipatæknifræðingur

Daníel útskrifaðist sem stálskipasmiður 1973 frá Stálvík við Arnarvog, vann síðan sem  skipasmiður og á teiknistofum. Eftir framhaldsnám í Helsingör 1992 sinnti hann ýmsum verkefnum til ársins 2008. Daníel hefur síðan aðallega sinnt ráðgjöf og smíði 30 tonna plastbáta.

Spegill fortíðar – silfur framtíðar.
Miðvikudagskvöldið 3. janúar 2024, kl. 20.00
Sjóminjasafnið, Grandagarði 8, 101 Reykjavík.

Vestmannaeyingarnir Ingibjörg Bryngeirsdóttir og Ásmundur Friðriksson fræða okkur um líf kvenna í sjávarútvegi og lífssögu Didda Frissa

Spegill fortíar – silfur framtíðar

Miðvikudagskvöldið 4. okt. 2023 í Sjóminjasafni Reykjavíkur klukkan 20:00

Slysavarnaskóli sjómanna og horfin handtök við sjómennsku

Á fyrsta fræðslufundi vetrarins fræða reynsluboltarnir og frumkvöðlarnir Höskuldur Einarsson og Guðbjartur Gunnarsson okkur um tilurð Slysavarnaskóla sjómanna og öryggi til sjós.

Höskuldur Einarsson er einn af frumkvöðlunum að stofnun skólans og einn af fyrstu þrem starfsmönnum hans. Í fyrirlestri sínum fræðir hann okkur um hvað varð til þess að menn fóru að íhuga þessi mál og hvernig öryggisfræðsla var í Slysavarnaskólanum.

Höskuldur var m.a. í fyrstu áhöfn Neyðarbíls Slökkviliðs Reykjavíkur og Borgarspítala frá 1982 og er með menntun sem neyðarflutningsmaður EMT-I.

Hann var einn af stofnendum Slysavarnaskóla sjómanna árið 1985 og var yfirkennari skyndihjálpar og slökkvistarfa um borð í skólaskipinu Sæbjörgu.

Guðbjartur I Gunnarsson, skipstjóri mun segja frá störfum sínum hjá Slysavarnafélgi Íslands, veru sinni á síðutogurum og sýna stutta mynd um horfin handtök til sjós.

Guðbjartur hefur víða komið við. Hann hóf sjómennsku á togaranum Surprise frá Hafnarfirði og var síðan til sjós á bátum eða togurum. Lengst af hjá Hafrannsóknarstofnun sem stýrimaður og skipstjóri. Í tvö ár vann hann fyrir Þróunarstofnun Íslands í Namibíu sem stýrimaður á rannsóknarskipinu Benguela og við kennslu í Luderitz. Síðar vann hann í Namibíu í eitt og hálft ár sem skipstjóri á rannsóknarskipinu Welwitshia og við kennslu við sjómannaskólann í Walvis Bay.

14. maí 20213

Fyrstu daga maí heimsótti formaður Vitafélagsins-íslenskrar strandmenningar sænska skóla til að kynna sér hvernig Svíar standa vörð um verkþekkingu við smíði tréskipa- og báta. Með í för voru Anita Elefsen, forstöðumaður Síldarminjasafnsins á Siglufirði, Einar Jóhann Lárusson nýútskrifaður bátasmiður, Birkir Þór Guðmundsson áhugamaður um bátavernd og Hrafnkell Marínósson kennari við Tækniskólann.

Það voru þreyttir en sælir ferðalangar sem komu frá Stokkhólmi föstudainn 5. maí eftir nokkurra daga heimsókn í sænska lýðskóla, söfn og bátasmiðjur. Þar fengu þeir að kynnst því hvernig Svíar hlú að verkþekkingu og vernd á bátasmíði og menningararfi sem tengist hafi og strönd.

Tveir lýðskólar voru heimsóttir; Skeppholmens folkhögskola sem er í miðborg Stokkhólms og lýðskólinn í Stensund sem er i Trosa. Skólinn við hafið eins og heimamenn kalla hann. Báðir skólarnir bjóða uppá tvegja ára nám í bátasmíði og bera greinilega mikla virðingu fyrir þeim heiðri að handverkið við smíði súðbyrtra báta sé á heimsminjaskrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf. En svo varð 14 desember 2021. Þetta er fyrsta og eina samnorræna menningararfleiðin sem er á þessum lista og sú eina íslenska.

Hópurinn heimsótti einnig Vasa safnið og Vrak sem og bátasmiðjuna – Stockholms Båtsnickeri, sem starfrækt er í útjaðri borgarinnar. Þar starfa fimmtán bátasmiðir í fullu starfi við viðgerðir, viðhald og nýsmíði á tréskipum. Auk formanns Vitafélagsins – íslenskrar strandmenningar voru í hópnum, Einar Jóhann Lárusson nýútskrifaður bátasmiður, Birkir Þór Guðmundsson áhugamaður um bátavernd, Hrafnkell Marinósson kennari við Tækniskólann og Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins á Siglufirði.

Súðbyrtir bátar eru varðveittir á sjóminja- og byggðasöfnum Íslands, en á meðan norrænar þjóðir hampa því að handverkið við smíði súðbyrtra báta er komið á heimsminjaskrá UNESCO og efla fjárveitingar til skóla, bátasmíðastöðva og félagasmtaka þá fella Íslendingar niður löggildinu náms í bátasmíði. Einungis á Síldarminjasafninu er boðið uppá vikulöng námskeið í bátasmíði, sem vissulega er mjög virðingarverð viðleytni, gagnast þeim vel sem einhverja reynslu hafa af smíðum og vekur áhuga hinna.

Ferðin var styrkt af Sænsk-íslenska samstarfssjóðnum/ Svensk-isländska samarbetsfonden

Laugardaginn 26. apríl 2003 hittist hópur fólks í húsakynnum Siglingastofnunnar í Kópavogi til að stofna fyrstu frjálsu félagasamtökin á Íslandi, sem hefði það að markmiði að efla áhuga og vitund fólks um þann auð sem er að finna við strendur landsins. Eftir nokkrar vangaveltur stofnfélaga, sem voru um 60, var ákveðið að félagið fengi heitið Íslenska vitafélagið.
Vitinn væri vörður lífs og fengi nú það hlutverk að auki að varðveita strandmenninguna. Ástæða nafngiftarinnar var einnig vissan um að nafnið fengi athygli, allir vita hvaða hlutverki vitinn gegnir á meðan orðið strandmenning var með öllu óþekkt í íslenskri tungu.                          

Þó svo að okkur sem að stofnun félagsins stóðu finnist  hægt mjakast þá hefur félagið þó áorkað ýmsu.

 Stiklað á stóru á 20 ára ferli

Vitafélagið – íslensk strandmenning www.vitafelagid.is  var stofnað árið 2003 sem frjáls félagasamtök og telur nú á þriðja hundrað félaga.  Á meðal  stofnfélaga má nefna Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Siglingastofnun og  Sjóminjasöfn auk einstaklinga. Félagið hefur hefur haft það að meginmarkmiði sínu að efla vitund Íslendinga um þau miklu menningarverðmæti sem liggja í og við strendur landsins, aðstoða við uppbyggingu strandmenningar, skapa tengsl og efla samstarf við frjáls félagasamtök á Norðurlöndum sem vinna að eflingu strandmenningar.  Strandmenning er nýyrði sem Vitafélagið hefur kynnt og lagt áherslu á í allri sinni starfsemi.

1. Friðun vita. Í samvinnu við Húsafriðunarnefnd ríkisins Vitafélagið -íslensk strandmenning að fyrstu friðlýsingu íslenska vita sem fram fór við hátíðlega athöfn að viðstöddum ráðherrum 1. desember 2003  í Gróttu. Friðlýstu vitarnir sjö eru : Arnarnesviti við Skutulsfjörð (byggður 1902 endurbyggður 1921), Bjargtangaviti (1913 endurbyggður 1923 og 1948), Dyrhólaey (1927), Garðskagaviti hinn eldri (1897), Hríseyjarviti (1920), Malarrifsviti (1946) og Reykjanesviti (1907).  Með friðuninni er lögð áhersla á varðveislu þessara merku menningarverðmæta.

2. Mánaðarlegir fræðslufundir sem bera samheitið: Spegill fortíðar-silfur framtíðar.  Yfir vetrarmánuðina er efnt til fræðslu- og skemmtifunda sem fyrstu árin voru í samstarfi við Sjóminjasafnið Víkina sem útvegaði húsnæði. Síðustu ár hafa ýmsir hagsmunaaðilar styrkt fundina. Á fræðslufundunum er strandmenningin skoðuð frá ýmsum hliðum og má þar nefna yfirskriftirnar;  Strandmenning – auður og ógnir, Landhelgi Íslands, Konur og strandmenning, Handverk og hefðir, Tónlist við sjávarsíðuna, Strandnytjar, Matarmenning,  Staða strandmenningar frá ólíkum sjónarhólum árið sem Ísland varð fullvalda ríki og svo framvegis.  Á þessum fundum fjalla sérfróðir einstaklingar um viðfangsefnið. Fræðslukvöldin eru ætíð vel sótt og mæta á bilinu 65-180 manns á hvern þeirra. Fundirnir eru öllum opnir og aðgangur ókeypis.

3. Hafið, fjaran og fólkið –  menningararfleifð, tækifæri og ógnir sjávarbyggða. Á hverju ári heldur Vitafélagið – íslensk strandmenning vorþing í sjávarbyggðum landsins í samstarfi við heimamenn.  Dagskrá hvers vorþings tekur mið af staðsetningu og sérkennum viðkomandi svæðis. Að skipulagningu koma sveitarfélög,  stofnanir og einstaklingar.  Vorþing með fyrirlestrum og fræðsludagskrá um íslenska strandmenningu hafa m.a. verið haldin á Ísafirði, í Grindavík, á Húsavík, Neskaupstað, Akureyri, Akranesi, Vopnafirði, Patreksfirði og Þingeyri.

4. Norrænar strandmenningarhátíðir. www.nordiskkustkultur.com Formaður Íslenska vitafélagsins er hugmyndasmiður og upphafsmaður að norrænu strandmenningarhátíðunum sem haldnar voru árlega frá 2011-2018. Fyrsta hátíðin var haldin undir heitinu Sail Húsavík, en síðan þá hefur yfirskriftin verið Nordisk kustkultur. Hátíðin 2012 var haldin í Ebeltoft í Danmörku, Karlskrona í Svíþjóð 2013, Oslo 2014 í Maríuhöfn á Álandseyjum 2015, í Vågi í Færeyjum, 2017 og á Siglufirði 2018. Hátíðirnar hafa vaxið og dafnað með hverju ári og eru allar norrænu þjóðirnar og sjálfstjórnarríkin nú virkir þátttakendur. Vitafélagið – íslensk strandmenning  hefur tekið mjög virkan þátt í þessum hátíðum og hafa yfir hundrað Íslendingar sótt hátíðirnar hverju sinni  sem virkir þátttakendur á vegum félagsins. Nú undirbúa norrænu samtökin mikla ráðstefnu og námskeið um norræna súðbyrta báta sem haldið verður í Hróaskeldu og Holbæk, 21. – 22. september 2023.       

5.  Útgáfustarfsemi. Vitafélagið – íslensk strandmenning gefur út fréttabréf tvisvar á ári þar sem sagt er frá því sem helst er á döfinni á hverjum tíma. Einnig hefur félagið gefið út fyrirlestra sem haldnir voru á hátíðinni Sail Húsavík og spil með myndum af ýmsum þáttum vita- og strandmenningar á Íslandi.

6.  Ráðstefnur: Vitafélagið-íslensk strandmenning stóð fyrir norrænni ráðstefnu í Stykkishólmi árið 2006 undir heitinu Vitar og strandmenning á Norðurlöndum.  Ráðstefnan var haldin í samvinnu við norrænu vita- og strandmenningarfélögin. Viðfangsefni ráðstefnu sem haldin var á Hótel Sögu árið 2007  var Strandmenning Íslands, staða hennar og framtíð. Þar voru á dagskrá fjöldi áhugaverðra fyrirlestra sem tengdust strandmenningu með einum eða öðrum hætti. Vitafélagið fékk til liðs við sig Ferðamálastofu,  Ferðamálasamtök Íslands, Siglingastofnun, Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd ríkisins og Samtök íslenskra sjóminjasafna. Félagið átti aðild að norrænni ráðstefnu um Vita og strandmenningu á Norðurlöndum sem haldin var á Álandseyjum í júní 2010. Félagið var aðili að ráðstefnunni Sjávartengd ferðaþjónusta á norðurslóðum – auður hennar og ógnir sem haldin var á Akureyri 2013 á vegum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

7. Málþing um verndun og nýtingu trébáta var haldið í Sjóminjasafninu Víkinni 6. maí 2011 í samstarfi við Faxaflóahafnir og Samtök íslenskra sjóminjasafna. Í samvinnu við íbúa og aðstandendur í Garðinum var efnt til Vita- og vísnahátíðar í Garðinum 2012.

8. Bátasmíði.  Haustið 2008 aðstoðaði Vitafélagið – íslensk strandmenning við að koma á samstarfi á milli Síldarminjasafnsins á Siglufirði og Bátaverndarmiðstöðvar Norður-Noregs í Gratangen. Markmið verkefnisins var að endurvekja bátasmíði á Siglufirði, miðla þekkingu á milli landanna og læra handverkið. Tveir Siglfirðingar, Björn Jónsson trésmiður og Örlygur Kristfinnsson, safnstjóri dvöldu í Gratangen á nokkurra vikna námskeiði í bátasmíði. Ári síðar kom Björn Lillevoll bátasmiður til Siglufjarðar og í samvinnu við Skúla Thoroddsen trésmið Síldarminjasafnsins smíðuðu þeir bát með eyfirska laginu. Farið var í öllum aðalatriðum eftir “Bát Soffíu á Nesi” sem smíðaður var í Slippnum á Siglufirði 1934. Þessi leið er talin heppileg til að endurheimta skipulega forna þekkingu í hefðbundinni bátasmíði. Tveir menn að auki, Björn Jónsson og Sveinn Þorsteinsson, gamalreyndir úr Slippnum, komu einnig að smíði bátsins.

9.Garðskagaviti

 Félagið lét smíða ljóshús á gamla vitann á Garðskaga og var það sett upp í maí 2016. Vitinn er næstelsti viti landsins, byggður 1897 og er jafnframt næstelsta steinhús landsins, hannaður af danska verkfræðingnum Thorvald Krabbe sem var starfsmaður dönsku vitamálastofnunarinnar.

10. Ljósmál – heimildarkvikmynd um vita landsins   

Heimildarkvikmyndin Ljósmál, sem fjallar um vita landsins og er 70 mín að lengd, var frumsýnd í Bíó Paradís 9. nóvember 2019 og sýnd á RÚV 2022. Handritshöfundur myndarinnar er Kristján Sveinsson, sagnfræðingur sem var einn af stjórnarmönnum Vitafélagsins, kvikmyndagerðarmaðurinn Einar Þór Gunnlaugsson annaðist leikstjórn en Sigurbjörg Árnadóttir, formaður var, fyrir hönd Vitafélagsins, aðal framleiðandi í samstarfi við RÚV og Kvikmyndamiðstöðina. Saga íslenska vitans er einstök og rauf bæði einangrun þjóðarinnar og færði henni tæknibyltinguna.

11. UNESCO og smíði súðbyrðings

Norrænu strandmenningarsamtökin/Nordisk kustkultur www.nordiskkustkultur.com  unnu að því að koma handverkinu við smíði súðbyrðing á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf heimsins (Intangible Cultural Heritage) og tóku Norðmenn að sér að stjórna því verki. Félag þeirra Kysten sem er systurfélag Vitafélagsins, hefur fimm stöðugildi auk blaðamanns og því var auðveldara fyrir þau en flest hinna félaganna að bæta þessu á sína könnu.  Vitafélagið – íslensk strandmenning vann hins vegar alla undirbúningsvinnu á Íslandi. Þann 30. mars 2020 var tilnefningin síðan afhent UNESCO í París, undirrituð af ráðherrum menningarmála allra norrænu ríkjanna sem og sjálfstjórnarríkjanna, Færeyja og Álandseyja. Stutt heimildarmynd var send inn ásamt umsókninni og má sjá hana á  https://vimeo.com/387955223/1a4d1d51eb

Handverk og hefðir við smíði súðbyrðings var síðan formlega sett á lista UNESCO 14. desember 2021 og undirrituð fyrir Íslands hönd af Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra menningarmála.

Aðalfundur Vitafélagsins verður haldinn laugardaginn 29. apríl 2023 kl. 10:00 í Sjóminjasafninu, Grandagarði 8

Auður vestfirskra stranda og María Júlía – Lilja Rafney Magnúsdóttir

Frá því land byggðist hafa Vestfiðingar sótt sjóinn og þar má enn finna merka sögu um gengin spor við sjávarsíðuna.

Björgunar- og rannsóknarskipið María Júlía er loks komin í slipp á Akureyri. María Júlía er fyrsta björgunarskip Vestfirðinga og á sér glæsta sögu sem slík, en ekki síður úr landhelgisstríðinu 1958 sem einn af varðbátunum í baráttu um yfirráð Íslendinga yfir fiskinum í sjónum í kringum landið. 

Að græða á sögunni – Eyþór Jóvinsson, frumkvöðull

Í Gömlu bókabúðinni á Flateyri er einnig hægt að ferðast 70 ár aftur í tímann með því að heimsækja kaupmannsíbúðina sem er í sama húsnæði, en hún hefur haldið sér nánast óbreytt frá því að verslunarstjórinn Jón Eyjólfsson lést árið 1950. Er íbúðin líklegast eina varðveitta íbúðin frá fyrri hluta seinustu aldar og því algjörlega einstök á landsvísu.

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes er sá eini sinnar tegundar á landinu og innan hans er að finna ríka strandmenningu og öflugt samstarf. En hvað er Svæðisgarður og hvaða þýðingu hefur hann fyrir íbúa svæðisins? Við þessu á Ragnhildur Sigurðardóttir öll svör.

Í djúpum Breiðafjarðar lifa sjóskrímsli af ýmsum toga og frá ómunatíð hafa íbúar á Snæfellsnesi orðið þeirra varir. Þorvaldur Friðriksson, fornleifafræðingur og rithöfundur er öðrum fróðari um tilvist þeirra.

Fyrsta fræðslukvöld vetrarins undir samheitinu „Spegill fortíðar – silfur framtíðar“ verður haldið í Sjóminjasafninu Grandagarði 8, 101 Reykjavík miðvikudagskvöldið 1. febrúar klukkan 20:00.

Kvöldið verður helgað Vestmannaeyjum og fyrirlesarar verða sagna- og alþingismaðurinn Ásmundur Friðriksson og Kristinn R. Ólafsson, leiðsögu-, útvarpsmaður, rithöfundur og þýðandi.

Er sagan þess virði að þekkja hana og tilhvers eru söfn og safngripir?  Perla Eyjafjarðar geymir mikilvæga sögu og á Minjasafninu á Akureyri fer fram þýðingamikið safnastarf. Um þetta getum við fengið meira að heyra miðvikudagskvöldið 2. nóvember klukkan 20:00 í Sjóminjasafninu í Reykjavík

Bókin Fornbátar á Íslandi eftir Helga Mána Sigurðsson stjórnarmann í Vitafélaginu – íslensk strandmenning hlaut 600 þúsund í styrk frá Hagþenki. Í bókinni er fjallað um 190 fornbáta. Bókin nær þó ekki yfir alla fornbáta á Íslandi, heldur er þar aðallega fjallað um báta í vörslu safna, sýninga og setra ásamt báta sem smíðaðir voru fyrir 1950 og voru á skipaskrá Samgöngustofu, áður Siglingastofnunar, þ.e. voru sjófærir.

Hagþenkir styrkir bók um fornbáta

12. október sl. styrkti Hagþenkir, félag höfunda fræðirita, á myndarlegan hátt skrif bókarinnar Fornbátar á Íslandi eftir Helga Mána Sigurðsson, stjórnarmann í Vitafélaginu með fleiru. Styrkurinn var kr. 600.000,- sem bæði auðveldar útgáfu bókarinnar og er fagleg viðurkenning.

Tildrög bókarinnar voru þau að árið 2016 ákvað Samband íslenskra sjóminjasafna að setja saman skrá yfir fornbáta á Íslandi. Tilgangurinn með því var að varpa ljósi á stöðu bátavarðveislunnar í landinu og stuðla að bættri bátavernd. Ennfremur mundi hún auka þekkingu á þessum hluta menningararfsins og auðvelda frekari rannsóknir. Að skránni vann Helgi ásamt Ágústi Georgssyni.

Vinnu við Fornbátaskrána lauk í ársbyrjun 2019 og var hún þá orðin 832 blaðsíður að lengd. Vegna stærðarinnar var hún gefin út á netinu, hýst hjá Þjóðminjasafninu en yfirleitt nægir að slá inn leitarorðið fornbátaskrá. Fjöldi báta sem fjallað er um í henni er 190. Hún nær þó ekki yfir alla fornbáta á Íslandi, tekur einkum til báta í vörslu safna, sýninga og setra ásamt báta sem smíðaðir voru fyrir 1950 og voru á skipaskrá Samgöngustofu, áður Siglingastofnunar, þ.e. voru sjófærir.

Elstu bátarnir sem teknir hafa verið til varðveislu eru opnir árabátar. Þeir eru fjölbreyttur flokkur vegna mismunandi notkunar, náttúrulegra aðstæðna á hverjum stað og fleiri atriða. Þeir teljast mikilvægasti flokkurinn og sá sem auðveldast hefur verið að varðveita. Á 20. öldinni komu til sögunnar stærri bátar, plankabyggðir, vélknúnir, þilskip, stálskip o.s.frv. Allmörg sýnishorn þeirra eru einnig í fornbátaskránni.

Í þessari bók, Fornbátar á Íslandi, er fjallað um rúmlega fjórðung þeirra báta sem finna má í Fornbátaskránni, 57 alls. Upplýsingar eru ekki settar fram í skýrsluformi heldur samfelldu máli og bætt við ýmsum upplýsingum, ekki síst um notkun bátanna og notendur. Við val á bátunum voru ýmis atriði höfð í huga, svo sem aldur, sögulegt gildi og fjölbreytni.  Af þessum bátum eru fiskibátar flestir, 43 talsins. Þar af eru árabátar rúmlega helmingurinn, hinir eru trillur, planabyggðir bátar o.s.frv. Bátar með önnur hlutverk eru 14, þ.e. flutningabátar, björgunarbátar, dráttarbátar, varðskip og skemmtibátar. Sumir bátarnir höfðu fleiri hlutverk en eitt.

Bókin verður gefin út af Skruddu á næsta ári, 2023.

                                                                                                                           HMS

Elsti íslenski fornbáturinn, Vigur-Breiður, fyrir framan bæjarhúsin í Vigur. Ljósm. Felicity Aston.

Risið úr rústum. Saga Siglufjarðar í máli og myndum.

Málþing í Vatnasafninu Stykkishólmi laugardaginn 1. október 2022

Verkþekking við sjávarsíðuna -auður til arfs. Málþing í Sjóminjasafninu, Grandagarði 8 Reykjavík laugardaginn 17. september 2022.

Silfur hafsins.
Heimildarmynd um hugrekki og hvötina til síldveiða.
Sýnd:
Bíó Paradís, Reykjavík, 28. júlí kl. 19:00

Síldarminjasafni Íslands, Siglufirði, 31. júlí kl. 17:00 og 20:00

Herðubreið, Seyðisfirði, 2. ágúst kl. 18:00

Bátasmiðirnir

Handverk og hefðir við smíði norræna súðbyrðingsins var sett á lista Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna – UNESCO þann 14 desember 2021.
Á dagskrá hjá N4 klukkan 20:00 sunnudaginn 12. júní 2022.

Ljósmál – heimildarmynd um vita. Sýnd á rúv mánudaginn 6 júní klukkan 19:40

Vitafélagið-íslensk strandmenning - vitafelagid(á)vitafelagid.is