Afurðir úr töfrum hafsins. Er hægt að framleiða fatnað úr þara og roði? Þessum spurningum og ýmsum fleirum svara lista- og handverkskonurnar Katrín Þorvaldsdóttir og Arndís Jóhannsdóttir í fyrirlestrum sínum og spjalli í Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, miðvikudagskvöldið 6. mars kl. 20:00

Katrín Þorvaldsdóttir hefur unnið með þang og þara í þrjátíu ár. Undanfarin ár hefur hún verið að gera tilraunir með að nota þetta náttúrulega efni til ýmiskonar listsköpunar. Hún fer niður í fjöru og safnar saman þaranum sem þar flýtur og skapar úr honum hinar ólíklegustu myndir. Hún segir þangið hafa alveg sérstakan karakter sem hefur mikil áhrif á alla listsköpun. Katrín er vel menntuð á listasviðinu, stundaði nám í Danmörku og á Spáni. Hún hefur unnið í hin ýmsu listform. Hún hefur leikið á sviði, stýrt brúðuleikhúsi, unnið fyrir sjónvarp og haldið sýningar, bæði ein og í samvinnu við aðra listamenn.

Fiskroð er til margskonar hluta nýtilegt. Það hefur Arndís Jóhannsdóttir sannað fyrir margt löngu. Í fyrirlestri sínum sýnir hún og segir frá notkun sinni á roði úr ýmsum fisktegundum til gerðar á nytjalist. Í höndum hennar verða til skartgripir, veski, töskur og fleira úr flestum tegundum roðs. Arndís lærði söðlasmíði í London og vann við söðlasmíði fyrstu árin eftir heimkomuna. Síðar snéri hún sér að roði og hefur sýnt afurðir sínar úr roði á hátíðum og sýningum víða í Evrópu.

Vitafélagið-íslensk strandmenning - vitafelagid(á)vitafelagid.is