Ágætu lesandi.
Starfsemi Vitafélagasins-íslenskrar strandmenningar er og hefur verið með breyttu sniði, rétt eins og allt annað í þjóðfélaginu á tímum veirufaraldurs. Þessi lítt skemmtilega vá kom í veg fyrir málþing á vormánuðum sem og síðasta fræðslukvöld vetrarins sem vera átti í Reykjavík í apríl.
Félagið heldur þó ótrautt áfram starfi sínu og á næstu mánuðum hyggjumst við efna til málþinga vítt og breytt um landið í samstarfi við heimamenn og ráðuneyti mennta- og menningarmála. Ljúka síðan vetrarstarfinu á málþingi í Reykjavík.
Viðfangsefni vetrarins verður súðbyrðingurinn, saga hans og hefðir og tilnefning hans á lista hjá Menningarmálastofnun Sameinuðuþjóðanna, UNESCO, en í mars s.l. sameinuðust Norðurlöndin öll, ásamt sjálfstjórnarríkjunum, Færeyjum og Álandseyjum, um tilnefningu norrænnar trébátasmíði á skrá hjá UNESCO. Listann um óefnislega menningararfleifð mannkynsins, þar sem mælst er til þess að skráð verði verklag, siðir, venjur og hættir sem tengjast norrænum súðbyrtum trébátum.
Á súðbyrtum bátum komu fyrstu íbúar þesa lands og stunduðu fiskveiðar með strönum fram, fluttu fólk og búfénað landa á milli og skelltu sér í ferðalög yfir úthafið í ýmsum erindagjörðum.
Til skamms tíma voru bátasmíðar stundaðar allt í kringum landið þrátt fyrir mikinn trjáskort. Knerrir, teinæringar, áttæringar, sexæringar, fjögurramannaför og tveggjamannaför – til hinna fjölbreytilegustu nota. Nú horfir öðruvísi við og einungis einn einstaklingur er nú nemandi í bátasmíði. Fæst íslensk ungmenni kunna áralagið og opnir súðbyrtir bátar eru næsta sjaldgæf sjón við strendur landsins.
Ef Covid 19 gefur okkur einhver grið þá eru fyrirhuguð málþing á Siglufirði og í Stykkishólmi fyrir áramót. Eftir áramótin er stefnt á málþing á; Akureyri, Eskifirði, Vestmannaeyjum, Grindavík og á Flateyri er í undirbúningi bæði námskeið í nýsmíði og viðgerðum á súðbyrtum bátum, auk málþings. Vorþing félagsins verður svo í Reykjavík í maí. Á málþingunum viljum við skapa umræðu um það hvernig hægt er að nýta tilnefninguna, sem vonandi verður ekki bara tilnefning í langan tíma, heldur sú staðreynd að eftir ár verða súðbyrtir bátar komnir á heimsminjaskrá UNESCO, listann yfir menningarerfðir mannkyns-listann yfir þýðingarmikla starfshætti sem borist hafa frá kynslóð til kynslóðar – hefðir sem munu hverfa verði þeim ekki viðhaldið.
Hvernig getum við aukið áhuga, eflt þekkingu og nýtt menningararfinn til atvinnusköpunar?
Hver er framtíðarsýn fólks í hinum ólíku byggðarlögum þegar kemur að strandmenningu ?
Víða eru sterk félög í kringum strandmenningu og súðbyrta báta á Norðurlöndunum þótt þeir séu ekki lengur nauðsynlegir fyrir afkomu landsmanna. Í þeim fer saman þekking og varðveisla menningararfs, útivist, félagsstarf og vistvænn ferðamáti. Smíði þeirra er kennd í lýðskólum, iðnskólum og saga þeirra og smíði kennd á háskólastigi í Noregi.
Að setjast undir árar á opnum súðbyrtum báti felur í sér umhverfisvæna frístundaiðju og náttúruupplifanir, tengsl við fortíðina og jafnframt eru þeir ákjósanlegur rammi um umhverfisvæna frístundaiðju. Súðbyrðingarnir gefa fólki tækifæri til að rækta hefðir og rótgróna menningu í samfélagi við aðra og tryggja framtíð bátanna með því að leiða notkun þeirra inn á nýjar brautir. Það er von okkar í Vitafélaginu –íslensk strandmenning að áhugi landsmanna á strandmenningu þjóðarinnar aukist til muna og súðbyrtum bátum verði aftur róið um flóa og firði landsmönnum til gleði og ánægju.
Vegna COVID 19 verða málþing félagsins auglýst nánar, þegar nær dregur, hér á heimasíðu félagsins og á facbook.