Vitafélagið – íslensk strandmenning
Lög


1. gr.

Nafn félagsins er Vitafélagið – íslensk strandmenning.

2 . gr.

Heimili þess og varnarþing er hjá formanni hverju sinni.

3. gr.

Vitafélagið – íslensk strandmenning eru frjáls félagasamtök.

Markmið félagsins eru að:

* auka áhuga og þekkingu á vitum, bátum, byggingum og öðrum menningarminjum og handverkshefðum við strendur landsins;
* stuðla að verndun vita, báta, strandminja og hefða er tengjast strandmenningu sem mikilvægum hluta af menningararfi þjóðarinnar;
* stuðla að fjölbreytilegri notkun vitans og annarra strandminja sem samrýmist verndun og sögu viðkomandi staðar;

* koma á samvinnu við minjasöfn og aðrar opinberar stofnanir;

* stuðla að vernd náttúru við strendur landsins, m.a. með samstarfi við önnur félagasamtök, stjórnvöld, umhverfis- og náttúruverndarsamtök.
* koma á samvinnu við erlend strandmenningarfélög, vitafélög og stofnanir með sambærileg markmið.

4. gr.

Félagar geta verið: einstaklingar, félög, fyrirtæki og stofnanir sem áhuga hafa á yfirlýstum markmiðum félagsins.

Árlega greiða þeir félagsgjöld sem aðild eiga. Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi hverju sinni. Með aðild að félaginu fylgir eitt atkvæði á aðalfundi. Stjórnin getur vísað þeim félagsmönnum úr félaginu sem ekki greiða árgjald, brjóta gegn reglum félagsins eða skaða félagið á annan hátt. Úrsögn úr félaginu tekur gildi á næsta aðalfundi. Hætti félagi aðild eða sæti brottvikningu á hann ekki kröfu á félagið.

5. gr.

Almennir félagsfundir skulu haldnir eftir því sem þurfa þykir, en þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

6. gr.

Æðsta vald félagsins er í höndum aðalfundar. Aðalfund skal halda fyrir lok maí mánaðar ár hvert. Til hans skal boðað með minnst 10 daga fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

*Skýrsla formanns.
*Reikningsuppgjör s.l. árs.
*Lagabreytingar.
*Kosning formanns, fjögurra aðalmanna í stjórn og tveggja varamanna.
*Kosning tveggja skoðunarmanna til eins árs.
*Ákvörðun um félagsgjöld.
*Önnur mál

Framhaldsaðalfund má halda að beiðni stjórnar eða 1/3 hluta félagsmanna. Aðalfundur og framhaldsaðalfundir eru löglegir ef löglega er til þeirra boðað.

7.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum. Formaður skal kosinn sérstaklega en aðrir stjórnendur skipta með sér verkum þannig að einn er gjaldkeri, annar ritari, þriðji varaformaður og einn meðstjórnandi. Ef einn stjórnarmanna hættir skal varamaður taka sæti hans fram að næsta aðalfundi. Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda, sér um að framfylgja markmiðum félagsins og kemur fram fyrir hönd þess.

8. gr.

Formaður boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar og skal formaður boða til hans innan viku frá því beiðnin kemur fram.

9 . gr


Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn fyrir 1. mars og skulu sendar félagsmönnum til kynningar með aðalfundarboði. Lagabreytingar þarf að samþykkja með ¾ hluta greiddra atkvæða á aðalfundi eða framhaldsaðalfundi..

10. gr.


Félaginu má slíta ef 2/3 fullgildra félaga samþykkja það á aðalfundi eða framhaldsaðalfundi og þá renna eignir félagsins til stofnunar eða einstaklinga sem vinna að þeim markmiðum sem félagið hafði.


11. gr.

Lög þessi öðlast gildi á stofnfundi félagsins 26. apríl 2003.

Með áorðnum breytingum, seinast á aðalfundi 2021

Vitafélagið-íslensk strandmenning - vitafelagid(á)vitafelagid.is