Spegill fortíar – silfur framtíðar
Miðvikudagskvöldið 4. okt. 2023 í Sjóminjasafni Reykjavíkur klukkan 20:00
Slysavarnaskóli sjómanna og horfin handtök við sjómennsku
Á fyrsta fræðslufundi vetrarins fræða reynsluboltarnir og frumkvöðlarnir Höskuldur Einarsson og Guðbjartur Gunnarsson okkur um tilurð Slysavarnaskóla sjómanna og öryggi til sjós.
Höskuldur Einarsson er einn af frumkvöðlunum að stofnun skólans og einn af fyrstu þrem starfsmönnum hans. Í fyrirlestri sínum fræðir hann okkur um hvað varð til þess að menn fóru að íhuga þessi mál og hvernig öryggisfræðsla var í Slysavarnaskólanum.
Höskuldur var m.a. í fyrstu áhöfn Neyðarbíls Slökkviliðs Reykjavíkur og Borgarspítala frá 1982 og er með menntun sem neyðarflutningsmaður EMT-I.
Hann var einn af stofnendum Slysavarnaskóla sjómanna árið 1985 og var yfirkennari skyndihjálpar og slökkvistarfa um borð í skólaskipinu Sæbjörgu.
Guðbjartur I Gunnarsson, skipstjóri mun segja frá störfum sínum hjá Slysavarnafélgi Íslands, veru sinni á síðutogurum og sýna stutta mynd um horfin handtök til sjós.
Guðbjartur hefur víða komið við. Hann hóf sjómennsku á togaranum Surprise frá Hafnarfirði og var síðan til sjós á bátum eða togurum. Lengst af hjá Hafrannsóknarstofnun sem stýrimaður og skipstjóri. Í tvö ár vann hann fyrir Þróunarstofnun Íslands í Namibíu sem stýrimaður á rannsóknarskipinu Benguela og við kennslu í Luderitz. Síðar vann hann í Namibíu í eitt og hálft ár sem skipstjóri á rannsóknarskipinu Welwitshia og við kennslu við sjómannaskólann í Walvis Bay.