Nú er tæpt ár frá því að norrænu ríkin sameinuðust um að tilnefna norræna súðbyrðinginn, sögu hans og hefðir sem honum tengjast, á lista hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna – UNESCO. Af því tilefni ákvað Vitafélagið-íslensk strandmenning að standa fyrir málþingum um land allt þar sem umfjöllunarefnið væri súðbyrðingurinn og annar menningararfur við strendur landsins. Hvernig viljum við vernda og nýta þennan mikilvæga þátt íslenskrar menningar?

Búið er að skipuleggja málþing á eftirtöldum stöðum í samvinnu við heimamenn: Stykkishólmur, Flateyri, Siglufjörður, Akureyri, Eskifjörður og Vestmannaeyjar. Einnig hefur verið ákveðið að halda málþing í Reykjavík og hugsanlega víðar. Málþingin verða öll með svipuðu sniði en þar munu sveitarstjórar hvers sveitarfélags tala um stöðu og framtíðarsýn í sveitarfélaginu, frumkvöðull eða sérfróður einstaklingur fjallar um sögu og hefðir, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins fræðir gesti um hvers virði tilnefning súðbyrðingsins er og jafnframt mun hann kynna verkefnið Lifandi hefðir. Bátasmíðanemi eða bátasmiður ræðir um súðbyrðinginn og formaður Vitafélagsins talar um mikilvægi samstarfs.

Á Flateyri láta menn sér ekki nægja eitt málþing heldur er einnig búið að ákveða vikunámskeið í smíði súðbyrtra báta og verður það haldið í framhaldi af málþinginu.

Nú er einungis beðið eftir því að þríeykið leyfi okkur að hittast og faðmast á ný.

Málþingin verða auglýst á heimasíðu félagsins sem og á Facebook-síðu félagsins og í fjölmiðlum viðkomandi staða.

Vitafélagið-íslensk strandmenning - vitafelagid(á)vitafelagid.is