Laugardaginn 26. apríl 2003 hittist hópur fólks í húsakynnum Siglingastofnunnar í Kópavogi til að stofna fyrstu frjálsu félagasamtökin á Íslandi, sem hefði það að markmiði að efla áhuga og vitund fólks um þann auð sem er að finna við strendur landsins. Eftir nokkrar vangaveltur stofnfélaga, sem voru um 60, var ákveðið að félagið fengi heitið Íslenska vitafélagið.
Vitinn væri vörður lífs og fengi nú það hlutverk að auki að varðveita strandmenninguna. Ástæða nafngiftarinnar var einnig vissan um að nafnið fengi athygli, allir vita hvaða hlutverki vitinn gegnir á meðan orðið strandmenning var með öllu óþekkt í íslenskri tungu.                          

Þó svo að okkur sem að stofnun félagsins stóðu finnist  hægt mjakast þá hefur félagið þó áorkað ýmsu.

 Stiklað á stóru á 20 ára ferli

Vitafélagið – íslensk strandmenning www.vitafelagid.is  var stofnað árið 2003 sem frjáls félagasamtök og telur nú á þriðja hundrað félaga.  Á meðal  stofnfélaga má nefna Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Siglingastofnun og  Sjóminjasöfn auk einstaklinga. Félagið hefur hefur haft það að meginmarkmiði sínu að efla vitund Íslendinga um þau miklu menningarverðmæti sem liggja í og við strendur landsins, aðstoða við uppbyggingu strandmenningar, skapa tengsl og efla samstarf við frjáls félagasamtök á Norðurlöndum sem vinna að eflingu strandmenningar.  Strandmenning er nýyrði sem Vitafélagið hefur kynnt og lagt áherslu á í allri sinni starfsemi.

1. Friðun vita. Í samvinnu við Húsafriðunarnefnd ríkisins Vitafélagið -íslensk strandmenning að fyrstu friðlýsingu íslenska vita sem fram fór við hátíðlega athöfn að viðstöddum ráðherrum 1. desember 2003  í Gróttu. Friðlýstu vitarnir sjö eru : Arnarnesviti við Skutulsfjörð (byggður 1902 endurbyggður 1921), Bjargtangaviti (1913 endurbyggður 1923 og 1948), Dyrhólaey (1927), Garðskagaviti hinn eldri (1897), Hríseyjarviti (1920), Malarrifsviti (1946) og Reykjanesviti (1907).  Með friðuninni er lögð áhersla á varðveislu þessara merku menningarverðmæta.

2. Mánaðarlegir fræðslufundir sem bera samheitið: Spegill fortíðar-silfur framtíðar.  Yfir vetrarmánuðina er efnt til fræðslu- og skemmtifunda sem fyrstu árin voru í samstarfi við Sjóminjasafnið Víkina sem útvegaði húsnæði. Síðustu ár hafa ýmsir hagsmunaaðilar styrkt fundina. Á fræðslufundunum er strandmenningin skoðuð frá ýmsum hliðum og má þar nefna yfirskriftirnar;  Strandmenning – auður og ógnir, Landhelgi Íslands, Konur og strandmenning, Handverk og hefðir, Tónlist við sjávarsíðuna, Strandnytjar, Matarmenning,  Staða strandmenningar frá ólíkum sjónarhólum árið sem Ísland varð fullvalda ríki og svo framvegis.  Á þessum fundum fjalla sérfróðir einstaklingar um viðfangsefnið. Fræðslukvöldin eru ætíð vel sótt og mæta á bilinu 65-180 manns á hvern þeirra. Fundirnir eru öllum opnir og aðgangur ókeypis.

3. Hafið, fjaran og fólkið –  menningararfleifð, tækifæri og ógnir sjávarbyggða. Á hverju ári heldur Vitafélagið – íslensk strandmenning vorþing í sjávarbyggðum landsins í samstarfi við heimamenn.  Dagskrá hvers vorþings tekur mið af staðsetningu og sérkennum viðkomandi svæðis. Að skipulagningu koma sveitarfélög,  stofnanir og einstaklingar.  Vorþing með fyrirlestrum og fræðsludagskrá um íslenska strandmenningu hafa m.a. verið haldin á Ísafirði, í Grindavík, á Húsavík, Neskaupstað, Akureyri, Akranesi, Vopnafirði, Patreksfirði og Þingeyri.

4. Norrænar strandmenningarhátíðir. www.nordiskkustkultur.com Formaður Íslenska vitafélagsins er hugmyndasmiður og upphafsmaður að norrænu strandmenningarhátíðunum sem haldnar voru árlega frá 2011-2018. Fyrsta hátíðin var haldin undir heitinu Sail Húsavík, en síðan þá hefur yfirskriftin verið Nordisk kustkultur. Hátíðin 2012 var haldin í Ebeltoft í Danmörku, Karlskrona í Svíþjóð 2013, Oslo 2014 í Maríuhöfn á Álandseyjum 2015, í Vågi í Færeyjum, 2017 og á Siglufirði 2018. Hátíðirnar hafa vaxið og dafnað með hverju ári og eru allar norrænu þjóðirnar og sjálfstjórnarríkin nú virkir þátttakendur. Vitafélagið – íslensk strandmenning  hefur tekið mjög virkan þátt í þessum hátíðum og hafa yfir hundrað Íslendingar sótt hátíðirnar hverju sinni  sem virkir þátttakendur á vegum félagsins. Nú undirbúa norrænu samtökin mikla ráðstefnu og námskeið um norræna súðbyrta báta sem haldið verður í Hróaskeldu og Holbæk, 21. – 22. september 2023.       

5.  Útgáfustarfsemi. Vitafélagið – íslensk strandmenning gefur út fréttabréf tvisvar á ári þar sem sagt er frá því sem helst er á döfinni á hverjum tíma. Einnig hefur félagið gefið út fyrirlestra sem haldnir voru á hátíðinni Sail Húsavík og spil með myndum af ýmsum þáttum vita- og strandmenningar á Íslandi.

6.  Ráðstefnur: Vitafélagið-íslensk strandmenning stóð fyrir norrænni ráðstefnu í Stykkishólmi árið 2006 undir heitinu Vitar og strandmenning á Norðurlöndum.  Ráðstefnan var haldin í samvinnu við norrænu vita- og strandmenningarfélögin. Viðfangsefni ráðstefnu sem haldin var á Hótel Sögu árið 2007  var Strandmenning Íslands, staða hennar og framtíð. Þar voru á dagskrá fjöldi áhugaverðra fyrirlestra sem tengdust strandmenningu með einum eða öðrum hætti. Vitafélagið fékk til liðs við sig Ferðamálastofu,  Ferðamálasamtök Íslands, Siglingastofnun, Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd ríkisins og Samtök íslenskra sjóminjasafna. Félagið átti aðild að norrænni ráðstefnu um Vita og strandmenningu á Norðurlöndum sem haldin var á Álandseyjum í júní 2010. Félagið var aðili að ráðstefnunni Sjávartengd ferðaþjónusta á norðurslóðum – auður hennar og ógnir sem haldin var á Akureyri 2013 á vegum Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

7. Málþing um verndun og nýtingu trébáta var haldið í Sjóminjasafninu Víkinni 6. maí 2011 í samstarfi við Faxaflóahafnir og Samtök íslenskra sjóminjasafna. Í samvinnu við íbúa og aðstandendur í Garðinum var efnt til Vita- og vísnahátíðar í Garðinum 2012.

8. Bátasmíði.  Haustið 2008 aðstoðaði Vitafélagið – íslensk strandmenning við að koma á samstarfi á milli Síldarminjasafnsins á Siglufirði og Bátaverndarmiðstöðvar Norður-Noregs í Gratangen. Markmið verkefnisins var að endurvekja bátasmíði á Siglufirði, miðla þekkingu á milli landanna og læra handverkið. Tveir Siglfirðingar, Björn Jónsson trésmiður og Örlygur Kristfinnsson, safnstjóri dvöldu í Gratangen á nokkurra vikna námskeiði í bátasmíði. Ári síðar kom Björn Lillevoll bátasmiður til Siglufjarðar og í samvinnu við Skúla Thoroddsen trésmið Síldarminjasafnsins smíðuðu þeir bát með eyfirska laginu. Farið var í öllum aðalatriðum eftir “Bát Soffíu á Nesi” sem smíðaður var í Slippnum á Siglufirði 1934. Þessi leið er talin heppileg til að endurheimta skipulega forna þekkingu í hefðbundinni bátasmíði. Tveir menn að auki, Björn Jónsson og Sveinn Þorsteinsson, gamalreyndir úr Slippnum, komu einnig að smíði bátsins.

9.Garðskagaviti

 Félagið lét smíða ljóshús á gamla vitann á Garðskaga og var það sett upp í maí 2016. Vitinn er næstelsti viti landsins, byggður 1897 og er jafnframt næstelsta steinhús landsins, hannaður af danska verkfræðingnum Thorvald Krabbe sem var starfsmaður dönsku vitamálastofnunarinnar.

10. Ljósmál – heimildarkvikmynd um vita landsins   

Heimildarkvikmyndin Ljósmál, sem fjallar um vita landsins og er 70 mín að lengd, var frumsýnd í Bíó Paradís 9. nóvember 2019 og sýnd á RÚV 2022. Handritshöfundur myndarinnar er Kristján Sveinsson, sagnfræðingur sem var einn af stjórnarmönnum Vitafélagsins, kvikmyndagerðarmaðurinn Einar Þór Gunnlaugsson annaðist leikstjórn en Sigurbjörg Árnadóttir, formaður var, fyrir hönd Vitafélagsins, aðal framleiðandi í samstarfi við RÚV og Kvikmyndamiðstöðina. Saga íslenska vitans er einstök og rauf bæði einangrun þjóðarinnar og færði henni tæknibyltinguna.

11. UNESCO og smíði súðbyrðings

Norrænu strandmenningarsamtökin/Nordisk kustkultur www.nordiskkustkultur.com  unnu að því að koma handverkinu við smíði súðbyrðing á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf heimsins (Intangible Cultural Heritage) og tóku Norðmenn að sér að stjórna því verki. Félag þeirra Kysten sem er systurfélag Vitafélagsins, hefur fimm stöðugildi auk blaðamanns og því var auðveldara fyrir þau en flest hinna félaganna að bæta þessu á sína könnu.  Vitafélagið – íslensk strandmenning vann hins vegar alla undirbúningsvinnu á Íslandi. Þann 30. mars 2020 var tilnefningin síðan afhent UNESCO í París, undirrituð af ráðherrum menningarmála allra norrænu ríkjanna sem og sjálfstjórnarríkjanna, Færeyja og Álandseyja. Stutt heimildarmynd var send inn ásamt umsókninni og má sjá hana á  https://vimeo.com/387955223/1a4d1d51eb

Handverk og hefðir við smíði súðbyrðings var síðan formlega sett á lista UNESCO 14. desember 2021 og undirrituð fyrir Íslands hönd af Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra menningarmála.

Vitafélagið-íslensk strandmenning - vitafelagid(á)vitafelagid.is